140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[15:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ef kröfuhafar fengu lánasöfnin á gríðarlegum afslætti en skila nú gríðarlegum hagnaði, verður það fyrst og fremst rakið til þess að þeir eru að ganga að almenningi, þeir eru að innheimta á heimilin í landinu. Þar liggur hundurinn einfaldlega grafinn.

Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að hefja þessa umræðu. En ég vil líka benda á að þegar við framsóknarmenn mæltumst til þess að farið yrði í almennar aðgerðir fyrir heimilin í landinu varðandi skuldamálin, tók aðeins einn sjálfstæðismaður þátt í þeirri umræðu, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson. Ég fagna því sérstaklega að fleiri þingmenn eru nú reiðubúnir að taka þátt í þeirri umræðu.

Það er grafalvarlegt að við höfum þessar afskriftir ekki á hreinu. Við höfum heldur ekki á hreinu þann afslátt sem bankarnir fengu á lánasöfnin. Það er gríðarlega alvarlegt. Ég saknaði þess að heyra ekki frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hverjar tölurnar væru í raun og veru.

Við setningu neyðarlaganna skapaðist hér mikið óréttlæti. Þeir sem áttu peninga í bönkum, þeir sem áttu í peningamarkaðssjóðum, þeim var bjargað. En hvað með hina sem ákváðu að setja allan sinn sparnað í húsnæði? Þeir voru kannski í þeirri stöðu að verða að hafa þak yfir höfuðið, ungt barnafólk að stofna fjölskyldur. Í dag er það þetta fólk sem þarf að borga brúsann. Ég held að ríkisstjórnin þurfi ekki að halda fleiri fundi með Hagsmunasamtökum heimilanna þar sem samtökin ganga út og lýsa yfir stríði við núverandi ríkisstjórn. Það þarf að koma til almennra aðgerða. Ef setja þarf ný neyðarlög í landinu til að leiðrétta (Forseti hringir.) þetta óréttlæti, mun ég taka þátt í því.