140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[15:53]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Allt frá hruni hefur verið mikill blekkingaleikur í gangi af hálfu þeirra sem líta á sig sem hagsmunagæslufólk fyrir innlenda og erlenda fjármagnseigendur. Strax eftir hrun var reynt að blekkja lántaka með því að segja að afslátturinn sem nýju bankarnir fengu á lánasöfnum gömlu bankanna væri í samræmi við töpuð útlán. Því væri nauðsynlegt að innleiða sértæk skuldaúrræði sem gáfu bönkunum frjálsar hendur við að ákveða hverjir fengju leiðréttingu og hversu mikla. Mikill hagnaður nýju bankanna frá hruni hefur orðið til þess að opna augu lántaka fyrir því að þeir hafi verið blekktir. Mun meira svigrúm er til afskrifta en látið hefur verið uppi, en viðbrögð ráðherra og bankamanna voru að gefa upp misvísandi tölur um svigrúmið til afskrifta. Ræða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra breytir ekki miklu þar um.

Frú forseti. Deilurnar um svigrúmið til almennra afskrifta munu lama þjóðina þar til upplýsingar um afsláttinn koma fram í dagsljósið og svigrúmið nýtt til að leiðrétta forsendubrestinn, ekki aðeins hjá vildarvinum bankanna. Ef norræna velferðarstjórnin heldur áfram að vinna gegn almennri leiðréttingu lána, mun hún bera ábyrgð á stóraukinni misskiptingu hér á landi, milli þeirra sem sitja uppi með forsendubrestinn og hinna sem áttu innstæður eða tókst að fá fram réttláta leiðréttingu í gegnum dómstóla.