140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[15:58]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil viðra eitt atriði í umræðunni sem gleymist oft, en það er að þegar bankarnir voru endurreistir tókust aðilar á um mat á lánasafni bankanna. Nýi bankinn, þ.e. sá íslenski, vildi fá mikinn afslátt af lánasafninu en erlendu kröfuhafarnir, sem héldu utan um gamla bankann, vildu gefa lítinn afslátt, með það að sjónarmiði að staða lánasafnsins væri miklu betri en nýju bankarnir töldu. Lánasafnið væri gott og á grundvelli eignarréttar væri ekki hægt að meta það niður. Vegna þess að aðilarnir náðu ekki saman um matið, var ákveðið að meta söfnin lágt í yfirfærslunni en að gamli bankinn eða þrotabúið mundi svo njóta þess ef endurheimtur yrðu betri. Þetta var að mínu viti klók niðurstaða. Rými til afskrifta var búið til. Það var gefið. Lántakendur voru þar með settir í betri stöðu. Við sjáum hins vegar að bankarnir sýna ekki hagnað af kjarnastarfsemi sinni heldur er kostnaður þeirra að aukast þegar á heildina er litið og tekjur að minnka. Það er áhyggjuefni enda er mikilvægt fyrir atvinnulífið í landinu sem og heimilin að bankarnir okkar séu sterkir og geti stutt vel við bakið á heimilum og fyrirtækjum.

Ég vil líka segja, virðulegi forseti, að við þingmenn ættum ekki að býsnast yfir miklum afskriftum til einstakra fyrirtækja. Við ættum fremur að fagna því að heyra tölur um miklar afskriftir vegna þess að það þýðir að útlendingar eru að setja pening í íslenskt atvinnulíf. Þeir eru að gefa eftir skuldir til íslenskra fyrirtækja og því meira sem gefið er afskriftir af, því betur standa fyrirtækin. Hafi menn hins vegar brotið lög í fyrirtækjarekstri sínum fyrir hrun munu dómstólar ná þeim aðilum. Þess vegna eigum við að fagna því þegar miklar afskriftir eru gefnar.

Að lokum vil ég segja þetta, virðulegi forseti. Það er mikilvægt að bankar hraði þeirri vinnu sem þeir standa í núna, við að vinna á skuldamálum fyrirtækja og heimila.