140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[16:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum afskriftir og afkomu bankanna. Allt frá fjármálahruni og frá endurreisn bankanna hefur verið unnið hart í því af hálfu stjórnvalda með fjármálafyrirtækjum að vinna úr skuldavanda heimila og fyrirtækja. Í dag erum við þar stödd að frá hruni hafa um 900 milljarðar verið afskrifaðir hjá fyrirtækjum og um 164 milljarðar hjá heimilum landsins. Frá sama tíma hafa bankarnir skilað um 120 milljarða hagnaði og skýringin sögð vera endurmat eigna bankanna. Það er mjög eðlilegt að fólk spyrji sig: Hafa bankarnir fullnýtt það svigrúm sem þeir hafa til skuldaleiðréttingar og ekki bara til þeirra sem fóru óvarlega í fjárfestingum fyrir hrun, heldur skili hagnaði og mögulegu svigrúmi einnig til þeirra sem berjast við að standa í skilum og hafa ekkert fengið afskrifað til þessa? Ég tel það samfélagslega skyldu bankanna að taka að fullu þátt í endurreisn efnahagslífsins og skila sanngjörnum hluta hagnaðar aftur út í samfélagið.

Sérstöku samkomulag um endurskipulagningu skulda lítilla og meðalstórra fyrirtækja lýkur um áramót og stefnir í að verða um 200 milljarðar. Lánastofnanir stefna að því að ljúka afgreiðslu umsókna vegna skuldavanda heimila fyrir áramót.

Það kemur fram í skýrslu hjá sérstakri eftirlitsnefnd sem fylgst hefur með skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja að stærstur hluti afskrifta er vegna fjárfestinga og eignarhalds fyrirtækja og í mörgum tilfellum er hluta skulda breytt í hlutafé. Athygli vekur að fimm sjávarútvegsfyrirtæki fengu 61% skulda sinna niðurfellt og skera sig úr að því leyti að þar halda eigendur þeirra öllu sínu, fyrirtækjum, skipum og eftir atvikum aflaheimildum, en lög um bankaleynd koma í veg fyrir að upplýst sé hvaða fyrirtæki þetta eru. Þarna tel ég að ríkið eigi að beita sér fyrir því að komast yfir aflaheimildir og úthluta þeim aftur (Forseti hringir.) með gjaldi eftir öðrum leiðum.