140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[16:08]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég tók eftir því að hv. þingmaður, upphafsmaður umræðunnar, lýsti henni sem málefnalegri. Hún er búin að vera það um margt, en ég held samt að menn þurfi aðeins að gæta orða sinna. Í þessari umræðu hafa menn komist upp með það athugasemdalaust úr forsetastóli að segja mig hafa haft í frammi blekkingaleik, afhent vísvitandi rangar upplýsingar o.s.frv. Sú orðræða er engum til sóma. Það liggur alveg fyrir hvaða upplýsingar ég lagði hér fram. Það eru upplýsingar sem eru byggðar á stofnefnahagsreikningum bankanna. Þar var engum tölum breytt. Þær tölur sem liggja fyrir um afskriftir eru byggðar á sömu gögnum, reikningum bankanna. Svo segja menn að ekkert hafi verið afskrifað. Miðað við þau gögn sem liggja fyrir er búið að nýta tæpa 1.200 milljarða af þeim 1.700 sem eru til ráðstöfunar og við vitum að það er mjög mikið eftir óunnið í skuldaúrvinnslunni. Það er ekki einu sinni fullljóst hvort þetta svigrúm verði fullnýtt og hvort jafnvel þurfi að nýta enn meira svigrúm. Það verður þá gert á kostnað bankanna og það vil ég að verði gert.

Ég bið menn um að fara sér hægt í þeim yfirlýsingum sem þeir hafa gengið fram með hér. Ólíkar tölur og ólíkar forsendur, það er sjálfsagt að greiða úr því og forsætisráðherra hefur þegar sett af stað vinnu í því efni og óskað eftir aðkomu Hagsmunasamtaka heimilanna til að menn tali saman um tölur.

Það er rétt að vekja athygli á og minna á það enn og aftur að allar ákvarðanir sem teknar hafa verið um afskriftir skulda heimila og fyrirtækja hafa verið teknar á Alþingi með þverpólitískri samstöðu allra flokka. Það bera allir ábyrgð á því og menn geta ekki hlaupist frá því.

Að síðustu, menn kalla hér eftir að forsendubrestur verði leiðréttur með sama orðfærinu og þeir hafa alltaf notað. Þeir hlusta ekki á og hugsa ekki til þess að það er búið að prófa það mál og er ljóst að það verður ekki gert nema með því að skaða almenning í landinu með stórfelldum hætti. Ég get sagt hreint út og alveg skýrt að ég er ekki tilbúinn að flytja skuldir af þeim sem stofnuðu til þeirra yfir á eignalaust fólk sem á ekkert nema lífeyrisréttindin sín. Það mun ég aldrei gera. (Forseti hringir.) Ef það er brottfararsök vil ég glaður láta samþykkja á mig vantraust.