140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

meðferð sakamála og meðferð einkamála.

8. mál
[16:11]
Horfa

Flm. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga á þskj. 8 sem er 8. mál þessa þings um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála (endurupptökunefnd). Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Eygló Harðardóttir, Atli Gíslason, Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hjörvar, Árni Þór Sigurðsson, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari.

Frú forseti. Það kemur fyrir, enda þótt hæstaréttardómar eigi að heita endanlegir, að óska þarf endurupptöku mála. Endurupptaka er í sjálfu sér ekki ákvörðun um að breyta niðurstöðu dóma, heldur ákvörðun um að taka málið á ný til efnislegrar meðferðar í ljósi nýrra gagna eða annarra lagaskilyrða. Í flestum ríkjum og dómskerfum eru slík úrræði í lögum, enda snúast efnisreglur sem lúta að endurupptöku um mikilvæg mannréttindi. Þótt dómur sé fallinn er nefnilega nauðsynlegt að geta tekið mál upp að nýju til að saklausir menn séu ekki dæmdir með röngu.

Slík mál rata stundum í fréttir, þ.e. beiðnir um endurupptöku, og umræðan er oft tilfinningarík. Hún getur varað um árabil. Í 5. máli á dagskrá í dag er vísað til gamals endurupptökumáls sem var synjað fyrir 14 árum. Ég er hér að nefna og minna á beiðni um endurupptöku í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Ég vil líka nefna annað mál sem hefur verið í fjölmiðlum sem var beiðni um endurupptöku á máli sem kennt er við Slippinn í Reykjavík og loks vil ég nefna það mál sem er kveikjan að þessu máli af minni hálfu, svokallað Engihjallamál, mál móður sem í tíu ár barðist fyrir því að morðingi dóttur hennar væri ákærður og dæmdur fyrir brot á öðrum hegningarlagagreinum, þ.e. fyrir nauðgun. Hún hafði ekki erindi sem erfiði og gafst upp í fyrravetur.

Það hefur verið fullyrt opinberlega að nær öllum beiðnum um endurupptöku sé hafnað og að það sé vegna þess að dómstólar, í okkar tilfelli Hæstiréttur, séu í reynd að kveða upp úrskurð í eigin málum, jafnvel þannig að sömu dómarar og dæmdu viðkomandi mál taki ákvörðun um endurupptöku, af eða á. En um það er í reynd mjög lítið vitað. Upplýsingar um fjölda beiðna um endurupptöku og um afdrif þeirra hafa nefnilega ekki verið gerðar opinberar á Íslandi.

Síðasta vetur lagði ég því fram þrjár fyrirspurnir um slíkar beiðnir, um endurupptöku dæmdra mála og um afdrif þeirra á Íslandi síðustu tíu árin, og fékk skrifleg svör frá hæstv. innanríkisráðherra sem eru fylgiskjal með frumvarpinu og er að finna á þskj. 909, 1361 og 1930 á 139. löggjafarþingi. Þá kom ýmislegt í ljós. Meðal annars kemur þar fram að Hæstiréttur hefur aðeins í þremur tilfellum samþykkt beiðni um endurupptöku á tíu ára tímabili, frá 2000–2011. Þau þrjú mál sem voru samþykkt til endurupptöku voru samþykkt á árunum 2001, 2007 og 2010. Beiðnir um endurupptöku voru á þessu tímabili 41 en í fimm tilfellum var beiðni afturkölluð. Þegar málinu var svarað var eitt mál enn óafgreitt, frá árinu 2009 ef ég man rétt.

Í svörunum kemur einnig fram að algengast sé að þrír dómarar Hæstaréttar fjalli um beiðnir um endurupptöku máls en það er heimilt að þeir séu fimm. Í einstaka tilfellum hafa fleiri dómarar tekið þátt í meðferð slíkra mála. Þannig tóku þrír af dómurum Hæstaréttar ákvörðun um beiðni um endurupptöku í 31 tilviki af 32 á þessu árabili og í einu tilviki tóku allir dómarar Hæstaréttar þátt í að taka ákvörðun.

Þetta þýðir, frú forseti, að í tíu tilvikum af 32 sem synjað var hafi þeir dómarar sem tóku ákvörðun um beiðni um endurupptöku ekki dæmt málið, sem sagt í tæplega þriðjungi tilfella, en í 16 tilvikum var einn dómari sem tók þátt í að dæma viðkomandi mál, aftur kominn að málinu til að taka þátt í ákvörðun um afgreiðslu á beiðni um endurupptöku. Í fimm tilvikum voru tveir dómarar sem komu að endurupptöku og höfðu tekið þátt í dómi. Í því tilviki þegar allir dómarar Hæstaréttar tóku þátt í að afgreiða slíka beiðni voru á meðal þeirra þeir þrír sem dæmdu málið.

Við þetta má bæta að í svörunum kemur fram að ákvarðanir Hæstaréttar um endurupptöku eru skráðar í gerðabók og umsækjendum og gagnaðilum sent endurrit í pósti en ákvörðunin ekki birt opinberlega líkt og tíðkast með dóma Hæstaréttar.

Í því sambandi vil ég vekja athygli á svari við spurningu nr. 3 á þskj. 1361 á bls. 7 með frumvarpi þessu.

Loks vil ég benda á að í þessum svörum kom einnig fram að á þessu tímabili liðu allt frá 26 upp í 427 daga frá því að réttinum barst beiðni um endurupptöku og þar til umsækjanda var tilkynnt um synjun hennar á árunum 2000–2010.

Frú forseti. Af þessum svörum er ljóst að ekki er óalgengt að beiðnir berist um endurupptöku máls fyrir Hæstarétti en einnig að langflestum þeirra er hafnað, aðeins þrjár beiðnir af 36 hafa verið samþykktar á tíu árum.

Þá eru dæmi um að dómarar sem dæmt hafa viðkomandi mál komi að ákvörðun um samþykki eða synjun um endurupptöku þess, þar á meðal allir þeir sem dæmdu í einu máli. Þetta þykir flutningsmönnum þessa frumvarps ekki eðlileg málsmeðferð. Menn verða að geta treyst því að opinberar stofnanir, ekki síst dómstólar, séu óvilhallar. Málsmeðferðin verður líka að vera gagnsæ og upplýsingar um afgreiðslu mála verða að vera opinberar eins og gildir um sjálfa dómana. Og því er þetta frumvarp flutt.

Hér er ekki verið að gagnrýna einstaka úrskurði eða ákvarðanir Hæstaréttar, hér er ekki hróflað við efnisreglum um skilyrði til endurupptöku mála. Þetta mál snýst um málsmeðferð og að hún megi vera hafin yfir allan vafa. Það er heldur ekki stefnt að því að fjölga endurupptökum eða að fleiri beiðnir væru samþykktar heldur aðeins, og ég ítreka það, að málsmeðferðin verði hafin yfir allan vafa, að hún verði óháð og gegnsæ.

Á Norðurlöndunum þekkjast tvær leiðir í þessum efnum. Þar taka ýmist endurupptökunefndir eða sérstakir dómstólar ákvarðanir um endurupptöku. Í Noregi er starfandi sérstök nefnd á grundvelli norsku dómstólalaganna sem hefur það hlutverk að ákvarða um endurupptöku. Í Danmörku er starfandi sérstakur dómstóll, „Den særlige klageret“, með leyfi forseta, en hann fjallar meðal annars um beiðnir um endurupptöku í refsimálum.

Alþingi fjallaði á 122. og 123. þingi um frumvarp sem þáverandi hv. þm. Svavar Gestsson flutti um svokallaðan réttarfarsdómstól, en honum var meðal annars ætlað að fjalla um endurupptökubeiðnir. Kveikjan að þeim málflutningi á sínum tíma var einmitt Guðmundar- og Geirfinnsmál, þau sem enn, 14 eða 15 árum síðar, eru hér á dagskrá í dag. Í umsögn réttarfarsnefndar frá þeim tíma, reyndar frá árinu 1998, var á það bent að hér á landi hefur stefnan verið sú að fækka sérdómstólum en ekki stofna til nýrra. Þannig voru á árinu 1991 lagðir niður ansi margir sérdómstólar, svo sem fógetaréttur, uppboðsréttur, skiptaréttur, kirkjudómur, sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum, sakadómur og loks siglingadómur ári síðar, 1992. Öll þessi verkefni voru lögð til héraðsdóms sem skyldi efldur á móti.

Nú má segja að auðvitað megi stofna til nýrra dómstóla ef þörf krefur þrátt fyrir þessa stefnu en flutningsmenn hafa kosið aðra leið. Við sóttum fyrirmynd í norsk lög og því er hér lögð til stofnun óháðrar endurupptökunefndar sem fjalli um beiðnir um endurupptöku, bæði í opinberum málum og einkamálum. Gert er ráð fyrir því að um störf nefndarinnar gildi ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og að staða endurupptökunefndarinnar verði með sama hætti og staða annarra úrskurðar- og áfrýjunarnefnda sem starfandi eru.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru breytingar á tveimur lagabálkum, annars vegar á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum, og hins vegar á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum. Þessar breytingar, frú forseti, eru eins og ég hef hér áður vikið að aðallega orðalagsbreytingar þar sem efnislegum skilyrðum endurupptöku er ekki breytt, heldur einungis skipt út þeim aðila sem taka skal ákvörðun um endurupptöku, þ.e. í stað Hæstaréttar kemur endurupptökunefnd.

Þó felast í frumvarpinu ný ákvæði að sjálfsögðu um endurupptökunefndina sjálfa, skipan hennar og starfshætti. Þar á meðal er gert ráð fyrir því að ákvarðanir nefndarinnar verði birtar opinberlega en það eru ákvarðanir Hæstaréttar um endurupptöku ekki núna. Þá er gert ráð fyrir að nefndina skipi fimm menn og að formaður hennar uppfylli hæfisskilyrði hæstaréttardómara og að hluti nefndarmanna sé löglærðir menn.

Með þessu móti, frú forseti, er tryggt að dómarar endurskoði ekki eigin dóma, að þeir sem fjalla um beiðnir um endurupptöku lúti stjórnsýslulögum hvað varðar hæfi og að um birtingu niðurstaðna gildi sömu reglur og um birtingu dóma. Það er markmiðið með þessu frumvarpi og ég vona svo sannarlega að um það markmið geti allir alþingismenn verið sammála.

Ég legg svo til að lokum að frumvarpinu verði vísað eftir 1. umr. hér til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.