140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

skipan sannleiksnefndar til rannsóknar á málsmeðferð Guðmundar- og Geirfinnsmála.

53. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um skipan sannleiksnefndar til rannsóknar á málsmeðferð Guðmundar- og Geirfinnsmála svokallaðra. Í henni segir að Alþingi álykti að fela forseta Alþingis í samráði við forsætisnefnd að skipa sannleiksnefnd til að rannsaka málsmeðferð svonefndra Guðmundar- og Geirfinnsmála. Sannleiksnefndin fari ítarlega yfir alla málsmeðferð og rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmála frá því á áttunda áratug 20. aldar. Nefndin verði skipuð þremur einstaklingum, lögfræðingi, sagnfræðingi og reynslumiklum fjölmiðlamanni, og skili niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. október 2012. Nefndin á að hafa óheftan aðgang að öllum gögnum málanna og leitast við að kalla til alla þá sem enn lifa og komu við sögu í rannsókn þeirra og málsmeðferð.

Áður en ég vík að greinargerðinni og rökstuðningnum fyrir tillögu þessari vil ég geta þess að nokkru eftir að þessi tillaga kom fram í þinginu skipaði hæstv. innanríkisráðherra starfshóp á vegum ráðuneytisins til að fara ofan í rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálanna á sínum tíma og fagna ég því mjög. Það er jákvætt innlegg í uppgjör og endurskoðun og vonandi að lokum endurupptökubeiðni samþykkta af Hæstarétti. Það er jákvætt fyrsta skref inn í það. Skipaði ráðherrann prýðilegt fólk í þennan starfshóp. Efast ég ekki um að hún skili athyglisverðum gögnum í þessa málsmeðferð, en starfshópnum er ætlað að skila áfangaskýrslu í apríl á næsta ári. Það er jákvæð viðbót við málsmeðferð þessa alla og tónar ágætlega við það að Alþingi skipi sannleiksnefnd sem hefði náttúrlega miklu umfangsmeira hlutverk og miklu sterkari stöðu til að fara ofan í alla sauma á rannsókn og málsmeðferðinni á sínum tíma og mun niðurstaða áfangaskýrslu starfshóps ráðherrans alveg áreiðanlega nýtast sannleiksnefndinni mjög vel þannig að eitt þvælist ekki fyrir öðru. Það var jákvætt fyrsta skref í því að taka þessi mál til endurskoðunar að ráðherra skyldi skipa þennan starfshóp. Fagna ég því og fer það vel með þessari tillögu hér.

Guðmundar- og Geirfinnsmálin eru einhver umdeildustu dómsmál í íslenskri sögu. Það þarf ekki annað en að lesa dómsniðurstöðuna og ýmis þeirra skjala sem eru aðgengileg til að sannfærast um að niðurstaðan er svo málum blandin, og er þá vægt til orða tekið, að sakborningarnir hefðu ólíklega fengið dóm ef málið hefði komið fyrir nú.

Málið snýst um tvö mannshvörf frá áttunda áratug síðustu aldar. Annað, Guðmundarmálið, snerist um ungan mann, Guðmund Einarsson, sem fór á dansleik, sást síðast nokkuð ölvaður á heimleið af ballinu en hvarf. Lík hans fannst aldrei og í raun bendir ekkert til þess að þetta mannshvarf sé sakamál nema mjög mótsagnakenndar játningar sakborninganna á þeim tíma. Þær voru líka jafnóðum dregnar til baka og nú liggur fyrir að játningarnar voru fengnar með þrýstingi rannsóknaraðila og mundu nú á dögum teljast óeðlilegar og sjálfsagt einhverjar ólöglegur sé trúnaður lagður á framkomnar skýrslur um það mál, bæði frá sakborningum, fangavörðum á þeim tíma og ýmsum öðrum sem komu að þessum málum og höfðu upplýsingar og vitneskju um rannsóknina, yfirheyrslur yfir sakborningum, mánaðar- og áralanga einangrun sakborninga og margt annað sem maður getur rétt ímyndað sér að hafi verið til þess fallið að rugla fólk mjög í ríminu og brjóta niður viljaþrek þess og allan andlegan styrk.

Hitt málið snerist um hvarf Geirfinns Einarssonar sem átti stefnumót við óþekktan mann en hvarf. Þar gæti vissulega hafa verið um að ræða saknæman atburð, en eins og í fyrra tilfellinu hefur ekkert lík fundist, engar vísbendingar um hvað gerðist, engin sönnunargögn af neinu tagi nema þær mótsagnakenndu játningar sem einnig einkenndu fyrra málið.

Við flutningsmenn þessarar tillögu, auk mín hv. þingmenn Þráinn Bertelsson, Margrét Tryggvadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall, Ólína Þorvarðardóttir, Skúli Helgason, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Lúðvík Geirsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, trúum að menn hafi talið sig gera gagn á sínum tíma. Rannsókn sannleiksnefndarinnar á ekki að snúast persónulega um þá sem stóðu að rannsókninni á þeim tíma. Menn höfðu þá mun takmarkaðri skilning á því en núna hvað það er í rauninni auðvelt að knýja fram játningar sakborninga og menn hafa líka betri skilning á því núna hversu rangt er að beita nokkurs konar þvingunum við yfirheyrslur eins og var svo augljóslega gert á mörgum stigum þessa máls þegar maður les hafsjó ýmissa gagna og frásagna opinberra skjala, óopinberra, útgefinna og óútgefinna, um þessar yfirheyrslur, málsmeðferðina og rannsóknina alla. Það er ekki aðeins siðferðilega rangt heldur leiðir líka nær undantekningarlaust til rangrar niðurstöðu.

Eftir umfangsmikla rannsókn á þessum tveimur aðskildu mannshvörfum benti ekkert til þess að mönnunum hefði verið banað en að henni lokinni voru sex ungmenni dæmd til þungra refsinga, sumir segja svipt lífinu og ærunni. Með öllu er óljóst hvað olli því að þau voru almennt tengd hvarfi mannanna, hvað þá fangelsuð og höfð í einangrun mánuðum og árum saman, eins og ég nefndi áðan.

Þekktasti sakborningurinn er án nokkurs efa Sævar Ciesielski sem lést fyrr á þessu ári. Hann var dæmdur í ævilangt fangelsi í héraði sem var mildað í 17 ár í Hæstarétti. Að lokum sat hann í fangelsi í níu ár. Hann barðist alla tíð fyrir því að málið yrði tekin upp aftur og það fengi réttláta málsmeðferð. Því var hafnað þrátt fyrir ítarlegar greinargerðir Sævars og Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns fyrir um 14 árum. Þá var heilmikill dampur í málinu, mikil umræða um að þörf væri á endurupptöku og endurskoðun á þessu mikla og fræga sakamáli. Því var því miður hafnað sem var mikið áfall fyrir þá sem fyrir því börðust og málið lagðist í lágina í framhaldinu.

Enn eru flestir á velli sem komu að málinu á seinni helmingi áttunda áratugarins og ekki skortir gögnin sem styðja nýja rannsókn á málinu að mati okkar sem flytjum þetta mál hérna. Þar vísum við í greinargerð Ragnars sem lögð var fram í Hæstarétti í febrúar 1997 og segir í niðurlagi, með leyfi forseta:

„Lögð hafa verið fram ný gögn eins og lýst hefur verið í greinargerð þessari. …

Í framlögðum skjölum er að finna annars vegar nýjar upplýsingar um málsatvik og hins vegar um málsmeðferð. … Með þessu er átt við að því meiri vafi sem leikur á því að sönnunargögn eins og játningar hafi verið rétt metin, því meira máli skiptir hversu vel og löglega var staðið að rannsókn málsins utan og innan réttar og meðferð á sökunautunum sjálfum t.d. varðandi öflun játninga. Því meiri upplýsingar um ranglæti við úrlausn máls og meðferð þess, ólöglegar aðferðir til að koma sökunautum til játningar og vanræksla á að gæta réttra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, því meiri kröfur verður að gera til þess að sönnunargögn verði ekki vefengd með skynsamlegum hætti, ekki síst játningar.“

Það er mikilvægt að halda til haga nokkrum meginatriðum málsins eins og þau birtast í gögnum sem voru lögð fram við endurupptökubeiðnina árið 1997 og þess vegna tínum við til í upptalningu í greinargerðinni nokkur helstu og þyngstu atriðin sem talin eru að mati okkar og margra annarra styðja endurupptökubeiðnina að nýju. Auðvitað verður það aldrei annað en Hæstaréttar að taka ákvörðun um endurupptöku málsins. Það liggur alveg ljóst fyrir. Þess vegna held ég, eins og umræðan þróaðist í sumar þegar mikið var rætt um þessi mál, að sannleiksnefnd sem Alþingi skipar og hefði umfangsmikinn aðgang að öllum gögnum máls og því fólki sem hefur þessa sögu að segja gæti gert mikið gagn í því að gera málið upp, varpa ljósi á staðreyndir, hugsanlega og örugglega í mörgum tilfellum að færa fólki æruna aftur þannig að margir sem komu að þessum hörmulegu málum geti lifað í sátt við málatilbúnaðinn og atburðarásina alla, hvorum megin borðsins sem þeir voru. Þetta snertir ekki bara sökunautana og sakborningana, auðvitað liggja líka þeir sem stóðu að rannsókninni og höfðu með yfirheyrslur og rannsókn málsins að gera undir þungu ámæli og það yrði örugglega ekki síst þeim að skapi og mikilvægt fyrir þá að málið yrði tekið fyrir aftur.

Vonandi getur niðurstaða slíkrar sannleiksnefndar á vegum Alþingis orðið það veigamikið gagn í endurupptökubeiðni að Hæstiréttur meti það svo að málið skuli tekið fyrir aftur. Það kemur bara í ljós. Alþingi tekur ekki fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu, en skipun slíkrar sannleiksnefndar held ég að sé mjög heppilegt framlag til þessa máls. Ég ræddi í aðdragandanum við marga sem hafa haft með ýmis slík mál að gera og það eru ýmsar skoðanir á því en það virtist nokkuð ágæt sátt um að þessi leið yrði farin. Það styður mjög að Alþingi fari þessa leið. Eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar fellur það vel að störfum slíkrar sannleiksnefndar að starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins fari yfir tiltekna þætti málsins, vinni þannig með sannleiksnefndinni, styðji vinnu hennar enn frekar, létti undir með henni og komi með gögn inn í þessa mikilvægu vinnu.

Auðvitað skiptir miklu máli þegar upp er staðið að um sé að ræða uppgjör á þessu mikla máli sem hefur að mörgu leyti hvílt eins og mara yfir hluta af íslensku samfélagi alla þessa áratugi og kemur alltaf upp aftur og aftur og snertir mjög við réttlætisvitund mjög margra Íslendinga. Það er óhætt að fullyrða það eins og umræðan er þegar þetta mál ber á góma, bæði í samtölum manna á meðal og í opinberri umræðu. Það geta verið mjög öfgakenndar og skiptar skoðanir um sekt og sakleysi og hvernig að málum var staðið, en það er svo mikil óeining um niðurstöðuna og svo miklar efasemdir um rannsókn og meðferð máls og hæstaréttardóminn að lokum að ég held að endurupptaka sé óumflýjanleg. Þessi sannleiksnefnd mun örugglega gera mikið gagn í því að gera þetta mikla mál upp.

Morð eða mannshvörf, það er það sem málið snýst um. Þegar endurupptökubeiðnirnar voru lagðar fram komu fram skriflegar nýjar skýrslur frá fjölda fólks sem kom að málum. Þær studdu kannski umfram nokkuð annað það að málið yrði tekið fyrir aftur. Þetta eru skýrslur frá Erlu Bolladóttur, Alberti Skaftasyni, Gísla Guðmundssyni, fyrrverandi yfirlögregluþjóni, nágrönnum Erlu, Hlyni Þór Magnússyni, fyrrverandi fangaverði, Jóni Bjarman fangelsispresti, Magnúsi Leópoldssyni og Magnúsi Gíslasyni fréttamanni. Þá höfðu að auki komið fram yfirlýsingar um málið frá Guðjóni Skarphéðinssyni í fjölmiðlum árið 1996 og hafa bæði Guðjón og Erla mjög hvatt til þess, eins og Sævar gerði, að málin verði tekin fyrir aftur. Þau fagna því að þau séu nú á dagskrá bæði ráðuneytis og Alþingis og styðja mjög að farið verði ofan í þetta mál að nýju.

Í öllum þessum nýju gögnum er að finna nýjar upplýsingar um bæði málsatvik og málsmeðferð sem hafa mikið með samhengi hlutanna að gera, mat sönnunargagna á borð við játningar, hvernig staðið var að rannsókn málsins utan og innan réttarins og meðferð á hinum grunuðu, t.d. varðandi öflun játninga.

Þá getum við í upptalningu þeirrar einföldu en sláandi staðreyndar að ekkert vitni sá Guðmund Einarsson í nánd við Hamarsbraut 11 þar sem honum átti að hafa verið ráðinn bani eða sökunauta í Guðmundarmáli ráðast á Guðmund og verða honum að bana. Ekkert vitni sá Geirfinn Einarsson fara inn í bifreið með sökunautunum og aka með þeim í dráttarbrautina í Keflavík. Ekkert vitni sá slagsmál í dráttarbrautinni þetta kvöld og enginn sá einhvern ráðast á Geirfinn og verða honum að bana. Ekkert vitni sá eitthvert hinna grunuðu með lík mannanna, enda hafa lík þeirra aldrei fundist.

Þá nefnum við að mjög var á reiki vitnisburður um það með hverjum Guðmundur Einarsson sást um nóttina og áttu lýsingar ekki við Kristján Viðar líkt og dómurinn byggist þó á. Málið er að langmestu byggt á játningum þeirra sem játuðu í Geirfinnsmáli af því að aldrei fannst lík og enginn sá atburðinn. Ástæður meintra manndrápa eru mjög á reiki. Sakborningar hafa nú skýrt frá því að ákæruvaldið hafi búið til söguna sem dæmt var út frá, þeim hafi verið lögð orð í munn eftir átta tíma viðtöl á dag, dag eftir dag, undir áhrifum geðlyfja, rænulítilla af svefnleysi. Eins og ég nefndi áðan eru þetta þungar ásakanir á þá sem höfðu með rannsóknina að gera og ekki okkar að fella nokkra einustu dóma um hvað er rétt og hvað rangt, hvað er satt og hvað ósatt í því. Þess vegna mun sannleiksnefnd á borð við þessa skipta miklu máli til að létta þessari möru af þjóðinni og gera upp þetta stóra, mikla og erfiða mál.