140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

26. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mjög ósammála flestu sem kom fram í máli hv. þingmanns en ég ætla að vera sammála honum um það að þessar auknu heimildir, rannsóknarheimildir, munu ekki leysa allan vanda, það er hárrétt, en þær mundu leysa einhvern vanda og þær mundu aðstoða við að fyrirbyggja ákveðna glæpi. Ég nefndi það í ræðu minni að þær heimildir sem norska lögreglan hefur í dag og hefur haft komu ekki í veg fyrir hryðjuverkin 22. júlí, þær gerðu það ekki, en þær heimildir sem danska lögreglan hefur haft og hefur í dag komu í veg fyrir fjöldamorð á starfsfólki Jyllandsposten, svo ég taki tvö dæmi sem eru nærtæk frá Norðurlöndunum. Auðvitað virkar þetta ekki alltaf en þetta er enn eitt tækið sem önnur lönd nota og þá eigum við líka að nota sama tæki, sem hefur virkað í sumum tilvikum mjög vel á Norðurlöndunum og víðar um heimsbyggðina.

Og sú orðræða að það eigi bara að bæta við fjármagni hjá lögreglunni og bæta mönnun, það er alveg rétt, það væri mjög gott að gera það en þetta er bara annars eðlis. Hérna er verið að tala um ákveðnar heimildir til ákveðinna rannsókna.

Ég hef líka tilhneigingu til að verja lögregluna svolítið. Mér heyrðist hv. þingmaður segja að lögreglunni sé ekki alveg treystandi o.s.frv. Ég tel að almenningur hafi sýnt það m.a. í skoðanakönnunum að hann treystir lögreglunni afar vel, margfalt betur en t.d. þinginu þar sem við sitjum, hv. Alþingi. Lögreglan mælist alveg í toppi í trausti. Hér var líka sagt að ríkislögreglustjóraembættið hefði líklega brotið lög o.s.frv. Ég veit ekki betur en að gefnar hafi verið opinberar skýringar á því og reyndar send einhver greinargerð til innanríkisráðuneytisins. Ég vara við því að hér sé talað af tortryggni í garð lögreglunnar. (Forseti hringir.) Ég tel að þessar heimildir eigi ekki bara rétt á sér, þær eru nauðsynlegar en það verður að fylgja skýrt eftirlit með þeim.