140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

26. mál
[17:33]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er að bakka aðeins úr vantraustinu á lögreglunni virðist treysta henni að hluta til. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við sem einn þriðji hluti ríkisvaldsins á Íslandi, þ.e. Alþingi, við höfum líka framkvæmdarvald og dómsvald, séum ekki að tortryggja eða grafa undan trausti á stofnunum sem eru gríðarlega mikilvægar í samfélagi okkar eins og lögreglan. Ég er mjög ánægð með hvað lögreglan hefur mælst hátt í trausti þrátt fyrir allt sem gekk á í búsáhaldabyltingunni. Lögreglan stóð sig með gríðarlega mikilli prýði þar og hefur gert það síðan og hefur haldið trausti. Það er bara stórmerkilegt hvernig það tókst í því ástandi sem hér hefur ríkt.

Aðalatriðið er það að við viljum gæta að öryggi borgaranna og við sem hér vinnum í almannaþágu eigum að gera okkar til þess. Að mínu mati er þetta nauðsynlegt til að auka öryggi borgaranna til framtíðar varðandi þá þætti sem hér voru nefndir, glæpi sem eru tiltölulega nýir og hafa verið að eflast hér upp á síðkastið, því miður, eins og mansal, það er búið að nefna það, fíkniefnainnflutningur, skipulagðir glæpahópar, hryðjuverkaógn. Þetta er til staðar og verður til staðar í næstu framtíð. Hvernig ætlum við að bregðast við því? Ætlum við ekki að gera neitt í því? Ætlum við ekki að gera það sama og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa gert með ágætisárangri í mörgum tilvikum? Að sjálfsögðu eigum við að gera það, það er engin spurning. Við eigum að samþykkja þetta mál, taka þessar heimildir upp, þær eru notaðar í ákveðnum tilvikum þar sem mikil hætta steðjar að og eru undir ákveðnu eftirliti þannig að það á að vera útilokað að misnota þær. Auðvitað setjum við ekki kerfi sem verður misnotað. Við eigum ekki að sitja hér og halda að okkur höndum þegar við vitum hvað er að gerast úti í bæ.