140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

virðisaukaskattur af opinberri þjónustu.

[10:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður hreyfir við máli sem er fullgilt að skoða og ég get upplýst hann um að meiningin er að það endurskoðunarstarf á sviði skattamála sem hefur verið í gangi, nokkurt hlé varð á í sumar en fer aftur af stað í haust, verði undir í þeim efnum. Við höfum fengið ábendingar um þennan þátt, ekki bara frá Viðskiptaráði og öðrum slíkum aðilum sem hafa áhyggjur af því, kannski aðallega vegna samkeppninnar eða samskiptanna við einkageirann, heldur líka hvað varðar rétt og sanngjörn skattskil og skattauppgjör í þessum efnum. Við þekkjum þetta dæmi úr fleiri geirum en hjá hinu opinbera þar sem þjónusta er án virðisaukaskattsskyldu eins og í fjármálageiranum. Þar greiða menn virðisaukaskatt vegna starfsemi á eigin vegum sem er virðisaukaskattsskyld úti á markaði en með upptöku fjársýsluskatts, sem nú er á döfinni, mun sú greiðsla falla niður á móti ígildi virðisaukaskattsins sem kemur í formi fjárfestingar

Þá hreinsast málin, að minnsta kosti á því sviði, en þegar kemur að opinberum rekstri sem er ekki virðisaukaskattsskyldur þurfa að vera þarna landamæri sem eðlilegt er að virða og kannski hafa ekki verið nægjanlega vel skilgreind í gegnum tíðina.

Hér er ekkert nýtt á ferðinni, það er rétt að leggja áherslu á það, heldur hefur þetta fyrirkomulag viðgengist um langt árabil. Hafi Viðskiptaráð haft sérstakar áhyggjur af fjölgun opinberra starfsmanna á undanförnum áratug held ég að við vitum öll hvenær sú fjölgun fór fram. Þróunin hefur því miður verið í aðra átt síðustu erfiðleikaár þar sem störfum hefur fækkað hjá hinu opinbera.

Ég tek undir það með hv. þingmanni, þetta er eitt af mörgum viðfangsefnum innan skattkerfisins sem þarf að huga að og það er verið að gera það.