140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

virðisaukaskattur af opinberri þjónustu.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við viljum hafa skýrar reglur í þessum efnum og hrein landamæri en það er ekki til þess að standa fyrir þeirri pólitík að einkavæða þessa starfsemi. Það eru eðlileg viðbrögð opinberra stofnana þegar þær þurfa að draga úr útgjöldum og standa jafnvel frammi fyrir því að þurfa að segja upp mannskap að reyna að nýta sinn eigin mannskap til að vera sjálfbærari um verkefni. (Gripið fram í.) Það á ekkert að blanda því saman við hitt að skattskilin þurfa að vera með eðlilegum hætti. Það er réttmætt sjónarmið að ekki sé með ósanngirni komist fram hjá greiðslu virðisaukaskatts af starfsemi sem er virðisaukaskattsskyld á markaði. Það er fullgilt sjónarmið þó að um sé að ræða svið sem ekki eru almennt virðisaukaskattsskyld. Við nálgumst þetta út frá því sjónarmiði að skattskilalandamærin þurfi að vera rétt en blöndum ekki inn í það spurningu um það hvort einkamarkaðurinn leysi alla hluti með hagkvæmari hætti (Forseti hringir.) en hið opinbera. Þar erum við hv. þingmaður ósammála.