140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

[10:39]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Fyrir liggur að senn lýkur fjárhagslegri skipulagningu Sveitarfélagsins Álftaness. Þeirri endurskipulagningu virðast tengjast einhver loforð um fjármuni sem eru skilyrtir sameiningu sveitarfélagsins við Garðabæ. Það liggur fyrir að Álftanes fór de facto á hausinn en einnig að eftir endurskipulagninguna sem kallar á umtalsverðar afskriftir skulda verður sveitarfélagið sjálfbært og því er krafan um sameiningu með þessum skilyrðum alleinkennileg.

Miklar deilur hafa skapast um allt land með sameiningu sveitarfélaga og munu skapast á Álftanesi og Garðabæ því að við sameiningu verður bara spurning um tíma hvenær Álftanesskóla verður lokað í nafni hagræðingar. Slík lokun eins og gerð hefur verið víða um land gerir í rauninni út af við þessi áður sjálfstæðu sveitarfélög sem samfélög. Því beini ég þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort hann sé ekki tilbúinn að setja í gang alvöruvinnu við að koma á enn frekari sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem yfir því öllu yrði einhvers konar höfuðborgarsvæðisstjórn sem hefði að gera með skipulags- og umhverfismál og þar með talið staðsetningu skóla. Núverandi sveitarfélög hefðu áfram einhvers konar sjálfsstjórn í öðrum málum þannig að tryggt yrði að íbúarnir fyndu sig áfram sem hluta af því samfélagi sem þeir búa þegar í.

Gríðarlegir kostir og hagræðingarmöguleikar felast í frekari sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og brýnt að áður en farið verður af stað með minni sameiningu sé tækifærið nýtt og hugsað stórt strax frá upphafi.