140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

salan á Byr og SpKef.

[10:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum um eignarhlutinn, ég hvet bara fólk til að lesa lög um Bankasýsluna og skoða tímalínuna varðandi þá hluti. En við skulum ekki ræða það núna, við getum þess vegna rætt það á eftir.

Ég vildi bara fá svar við þessum fyrirspurnum; hvort ekki sé alveg pottþétt að það mat sem var á eignum hjá SpKef og Byr haldi hjá þessum nýju aðilum, annars vegar Landsbankanum og hins vegar Íslandsbanka. Ég þarf að vísu varla að spyrja varðandi Byr vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur marglýst því yfir að þeir einu sem þurfa að samþykkja þann samruna séu Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið. En ef hæstv. fjármálaráðherra er með einhverjar aðrar fréttir held ég að það væri ekki úr vegi að hann upplýsti þing og þjóð um það.