140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

salan á Byr og SpKef.

[10:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í tilviki Byrs var ríkið minnihlutaaðili í þeim banka eftir að hann var endurfjármagnaður með því að stjórn gamla Byrs breytti kröfu sinni í hlutafé í bankanum og síðan þegar ljóst var að meira þurfti til að styrkja rekstur bankans var hann settur í söluferli eins og kunnugt er og var ríkið minnihlutaaðili í því máli. Í söluferlinu er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að bankinn sé seldur í því ástandi sem hann þá var og kom ekki til frekari fjárútláta af hálfu ríkisins eða skilanefndar af þeim sökum enda verður það nýr aðili sem tekur við bankanum og eftir atvikum endurfjármagnar hann eða sameinar hann rekstri sínum háð samþykki Fjármálaeftirlits og sparisjóðsyfirvalda.

Í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur er málið ósköp einfalt. Á grundvelli þeirrar algildu tryggingar sem fyrri ríkisstjórn gaf út um að allar innstæður yrðu tryggðar og núverandi ríkisstjórn hefur áréttað, er alveg ljóst að í því er fólgið (Forseti hringir.) að innstæðurnar verða tryggðar og þeim komið í skjól þannig að enginn tapar innstæðum sínum og menn hafa aðgang að þeim allan tímann. Síðan er það hið vandasama mat á verðmæti eigna sem við þekkjum vel (Forseti hringir.) frá fyrri tíma sem tekist er á um nákvæmlega þessa dagana.