140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

framlag úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaga.

[10:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að mörg sveitarfélög í landinu eiga við mjög mikla alvarlega fjárhagserfiðleika að stríða. Þannig munu ein 10–12 sveitarfélög hafa átt í samskiptum við eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaganna sem vitnar um hver staðan er.

Hins vegar er staða Álftaness sérstæð að því leyti að það sveitarfélag er eina sveitarfélagið í landinu sem tapað hefur stjórn á fjármálum sínum. Fjárhaldsstjórn fer með yfirráðin yfir fjárhag Álftaness í reynd. Samkvæmt tillögum fjárhaldsstjórnarinnar var óskað eftir því að mun hærra framlag en nemur 300 millj. kr., sem hv. þingmaður vísaði til, af þeim 700 sem Alþingi ákvað að ráðstafa sem aukaframlagi í jöfnunarsjóð til hjálpar nauðstöddum sveitarfélögum, rynni til Álftaness. Það var tillaga fjárhaldsstjórnarinnar.

Hins vegar er niðurstaðan sú að leggja til að 300 millj. kr. af 700 millj. kr. sem Alþingi ráðstafaði á sínum tíma fari til Álftaness og það er tillaga sem ég styð.

Hvað varðar þær reglur sem gilda skuli um ráðstöfun þess sem eftir er þá er það enn til umræðu. Við viljum að sjálfsögðu hafa sem best samstarf við sveitarfélögin um hvaða reglum sé fylgt hvað þetta snertir en þær reglur eru enn í mótun.