140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

framlag úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaga.

[10:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það er alveg rétt, sveitarfélagið Álftanes er eitt þeirra sveitarfélaga sem eru hvað verst stödd í landinu. En það eru mörg sveitarfélög í kringum landið sem eru algerlega aðframkomin. Mörg þessara sveitarfélaga máttu búa við það á góðæristímanum á meðan mikil uppsveifla og hagvöxtur voru á suðvesturhorninu og menn sáu sér fært að byggja sundlaugar og íþróttahús, að glíma við gríðarlega neikvæðan hagvöxt, fólksflótta. Á þeim tíma, góðæristímanum, gátu þessi sveitarfélög ekki byggt sig upp með nokkrum hætti.

Nú er komið inn í þetta mál og aukaframlagið tekið og skert um tæpan helming á þessu ári og eftir stendur spurningin sem enn er ósvarað: Með hvaða hætti verður komið til móts við þau sveitarfélög allt í kringum landið sem glíma við gríðarlegan fjárhagsvanda? Óttast hæstv. innanríkisráðherra ekki að þessi sveitarfélög mörg hver muni á næstu árum (Forseti hringir.) og jafnvel á næsta ári ekki geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu?