140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

ferjumál í Landeyjahöfn.

[11:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við höfum margoft rætt hér um Landeyjahöfn og þjóðveginn til Vestmannaeyja. Nú erum við að fara inn í annan siglingaveturinn með Landeyjahöfn og það hefur verið ljóst um allnokkurt skeið að Herjólfur er ekki það skip sem við munum geta notað fyrir höfnina til framtíðar. Fyrir um ári síðan ræddum við í þessum sal hvaða undirbúningur væri í gangi af hálfu þáverandi samgönguráðherra varðandi framtíðarsiglingarleiðina, þ.e. hvaða skip mundi koma í staðinn.

Þá var hv. þm. Róbert Marshall orðinn formaður í starfshópi sem átti að fjalla um málið. Vil ég nú ítreka spurninguna til hæstv. ráðherra: Hvernig gengur þessum starfshópi að vinna?

Síðan er það vandamál dagsins, þ.e. að það virðist vera að Herjólfur muni sigla í Þorlákshöfn á ný og það er nokkuð sem Eyjamenn sætta sig ekki við. Menn vilja að sjálfsögðu nýta þá fjárfestingu sem liggur í höfninni í Landeyjum. Vandamálið varðandi þá siglingarleið í dag er fyrst og fremst skipið. Þess vegna óska ég eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um hvaða vinna er í gangi núna varðandi þann vetur sem nú er hafinn. Hvernig líst hæstv. ráðherra á þau plön að fá Baldur ekki bara til að vera þarna í afleysingum heldur varanlega og þá væntanlega í vetur, eða þá annað skip sem er sambærilegt Baldri?

Það þarf að hafa hraðar hendur varðandi þetta mál vegna þess að segja má að samfélagið í Eyjum hafi miklar áhyggjur af þessu og sé uggandi um sinn hag varðandi siglingarleiðina og þjóðveginn í vetur. Ég óska því eftir að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það hér hvernig honum líst á þessi plön og hvaða framtíðarsýn og vinna til framtíðar eru í gangi.