140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

ferjumál í Landeyjahöfn.

[11:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og fagna þeirri yfirlýsingu sem hér er gefin um að þessi höfn sé hluti af vegakerfinu og þetta sé í rauninni þjóðvegurinn til Eyja. Þá verðum við að líta á rofið á samgöngum milli lands og Eyja sem rof á þjóðveginum og reyna að hafa hraðar hendur við að leysa vandamálið sem felst í því að Herjólfur er í rauninni ekki nothæfur í höfnina yfir vetrartímann. Ég fagna því að verið sé að skoða lausnina varðandi Baldur og þá afstöðu ráðherrans að honum lítist vel á það, en ég ítreka að það þarf að hafa hraðar hendur hvað það varðar.

Þó að hart sé í ári hjá okkur akkúrat núna verðum við að horfa til framtíðar og leggja drög að því að kaupa varanlegt skip sem verður þarna til framtíðar eða að láta smíða slíkt skip líkt og hugmyndin var í upphafi varðandi þessa framkvæmd. Þótt ekki (Forseti hringir.) verði ráðist í það alveg á næstu vikum verðum við engu að síður að nota tímann sem fram undan er (Forseti hringir.) til að undirbúa okkur og ég hvet ráðherrann til dáða í þeim efnum.