140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé mikilvægt að halda tveimur þáttum aðgreindum þegar við ræðum um mögulegar skuldbindingar ríkisins. Í fyrsta lagi að fyrir þeim sé gerð grein. Að sjálfsögðu er rétt og skylt og á að gera, að kortleggja og gera grein fyrir öllum ríkisábyrgðum og væntum framtíðarskuldbindingum þannig að sú mynd liggi sem skýrast fyrir. Það er önnur hlið málsins. Hitt er spurningin um gjaldfærslu og hvort teknar séu inn fjárheimildir vegna slíkra framtíðarhluta. Það er allt annað mál. Menn þurfa að hugsa aðeins sinn gang áður en þeir gera þær kröfur að þannig verði farið með bókhald ríkisins, með þeim miklu afleiðingum sem það mundi hafa.

Ég er sammála hv. þingmanni um að mjög mikilvægt sé að sjálfsögðu að slíkar framtíðarskuldbindingar, mögulegar ábyrgðir eða áföll séu alltaf kortlögð og veittar upplýsingar um það þannig að myndin í heild sinni liggi sem skýrast fyrir.

Hv. þingmaður telur að vandræðin í Sparisjóði Keflavíkur hafi öll gerst á minni vakt og séu þá væntanlega mér að kenna eða á mína ábyrgð. Ætli það sé þannig að rekstur Sparisjóðsins í Keflavík hafi verið sérstaklega undir minni handleiðslu? Ætli við séum ekki að glíma hér við einhverjar sorglegustu eftirstöðvar þess sem var í gangi í bankakerfinu og sparisjóðakerfinu á Íslandi á árunum fram að hruni? Það er auðvitað veruleikinn. Það mun væntanlega koma allt saman í ljós þegar opinber rannsókn birtist á því sem gerðist í sparisjóðunum, ekki síður en í stóru bönkunum. Og sjálfstæðismenn geta varla, jafnnálægt Sparisjóði Keflavíkur og þeir hafa sumir hverjir staðið, hengt það á mínar herðar hvernig þar var staðið að málum. En það má auðvitað reyna.

Varðandi hvað ríkið hafi grætt á kjarasamningunum held ég að það sé hæpið að orða það þannig. Þeir stofna til verulegra útgjalda og eru stærsta einstaka ástæðan fyrir því að útgjaldaskuldbindingar aukast um 14 milljarða kr. En tekjur aukast vissulega á móti, bæði af þeim ástæðum og fleirum, þannig að gatið sem eftir stendur þrátt fyrir gerð kjarasamninganna (Forseti hringir.) er minna en margir óttuðust kannski í upphafi, þar á meðal sá sem hér stendur. Ég hafði alveg eins búið mig undir að þetta mundi leiða til kannski 10–12 milljarða gats (Forseti hringir.) í fjárlögum þessa árs en niðurstaðan virðist ætla að verða tæpir 4 milljarðar og það er vel sloppið.