140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson ræddi um mikilvægi þess að fjárlaganefnd sinnti eftirlitshlutverki sínu og fengi til þess tilhlýðilegar upplýsingar og er það algjörlega í samræmi við til dæmis það tímamótaálit sem öll hv. fjárlaganefnd stóð að varðandi mikilvægi þess að agi og festa í fjárlagaferlinu yrðu stóraukin. Ég er svolítið hugsi yfir umræðu hv. þingmanns um styrki frá Evrópusambandinu. Hv. þingmaður fór yfir svör við fyrirspurnum þar sem fram kom að utanríkisráðuneytið hefði fjallað um þessar styrkveitingar og eins að fjallað hefði verið um styrkveitingar til Hagstofunnar. Nákvæmlega þessar 372 milljónir sem eru í fjáraukalagafrumvarpinu eru til þýðingarverkefna í utanríkisráðuneytinu sem og verkefna hjá Hagstofu Íslands. Ég velti því þar af leiðandi fyrir mér hvað það er sem hv. þingmaður er svona ósáttur við varðandi þessi atriði og telur okkur í hv. fjárlaganefnd hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar um.