140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að sóparinn og sópurinn er eitt en óhreinindin sem verið er að sópa er annað og þau voru búin til eða skilin eftir af öðrum.

Varðandi útkomu þessa fjáraukalagafrumvarps vek ég athygli hv. þingmanna á því að þó að afkoman versni vissulega um tæpa 4 milljarða kr. er það sennilega eitthvert minnsta frávik í afkomu sem lagt hefur verið fram í fjáraukalagafrumvarpi mjög lengi, innan við 1% af veltu ríkisins.

Hv. þingmaður nefndi svo í lok ræðu sinnar að sjálfsögðu hlut sem við erum öll upptekin af, það er þróun hagkerfisins og heimsbúskaparins á komandi missirum og hve kraftmikill batinn hér verður, sem vissulega er mikil þörf fyrir að haldi áfram. Við eigum öll mikið undir því. Við reynum að hafa áhrif á það sem við getum og er í okkar áhrifavaldi heima fyrir hjá okkur en ytra umhverfinu ráðum við lítið um. Glíman stendur um þetta í velflestum þróuðum hagkerfum þar sem mönnum gengur misvel að koma verðmætasköpun og hagvexti af stað og skapa störf. Við erum í svipaðri stöðu og aðrir í þeim efnum og þó að sumu leyti betur stödd, því að spár fyrir Ísland eru þrátt fyrir allt með því skásta sem núna er í boði innan OECD.