140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef ræður hv. þm. Björns Vals Gíslasonar yrðu greindar kæmi í ljós að alltaf er rætt um hrunið og að einhverjir ljótir karlar beri ábyrgð á því sem þá gerðist. Hann ber enga ábyrgð sjálfur, ekki nokkra. Sama er með þá ríkisstjórn sem hann styður. Hún ber enga ábyrgð, allt er þetta einhverjum öðrum að kenna.

Það sem vantar í fjáraukalagafrumvarpið sem við ræðum hér, er ekki rætt. Fjáraukalagafrumvarpið á að gefa mynd af þeim skuldbindingum sem menn sjá fyrir að verði. Það er ekki spurning um að þeir tugir milljarðar sem vantar hjá Sparisjóði Keflavíkur er skuldbinding sem menn sjá fyrir. Hún gerðist á vakt hv. þingmanns, því ekki var tekið nógu snemma á því og haldið var áfram að dæla inn innstæðum í þann ágæta sparisjóð — eða ekki, löngu eftir að vitað var hver staðan var. Þannig að fjáraukalögin sýna ekki rétta mynd af þeim skuldbindingum sem ríkissjóður hefur þegar tekið á sig og standa til.

Vaðlaheiðargöngin. Það var skrifað undir samning í gær. Hver á að bera ábyrgð á því? Það er ekki í fjáraukalögunum. Er meiningin að bakka með það? Fangelsið. Á ekki að fara að reisa fangelsi? Það stendur víst ekki til. Eða þá háskólasjúkrahús eða hvað sem er? Það vantar allar skuldbindingarnar inn í þetta.

Og 2008, þá man ég eftir því, þá var lágmarkslífeyrir elli- og örorkulífeyrisþega hækkaður úr 150 þús. í 180 þús. kr., um 20%. Ég man eftir þeim fjárauka á þeim tíma til að bjarga þeim einstaklingum sem voru í þeirri stöðu, af því að hv. þingmaður nefndi það.