140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom töluvert inn á að þetta gengi nú ágætlega allt saman, ég ætla svo sem ekki að ræða mikið um það við hann.

Þegar maður skoðar þær útgjaldabreytingar sem hafa orðið milli fjárlaganna til þessa fjáraukalagafrumvarps sem við ræðum hér, eru það rúmir 20 milljarðar þegar búið er að draga frá vaxtagjöldin. Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á að þetta er að stærstum hluta vegna kjarasamninganna, væntanlega 13, 14 milljarðar, eitthvað svoleiðis. En hv. þingmaður ræddi líka töluvert gerð nýrra kjarasamninga. Þegar við gerum kjarasamninga er mikilvægast af öllu að til verði kaupmáttaraukning. Við sáum til að mynda viðbrögð Seðlabankans þegar samningarnir voru gerðir og þar fannst mönnum mjög bratt farið með kauphækkanir og eingreiðslur sem settar voru inn í upphafi og vöruðu við því að til að þetta mundi ganga eftir yrði að vera töluverður vöxtur, hagvöxtur, og verðmætaaukning í landinu. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi engar efasemdir um að við séum að lenda í ákveðnum vítahring vegna þess að búið er að gera kjarasamninga sem kannski er ekki nægileg innstæða fyrir. Grunnurinn að kjarasamningum er að mínu mati sá að farið sé í ákveðna verðmætasköpun, annars lendum við í þeim vítahring sem við þekkjum frá árum áður þegar menn fara að hækka vörurnar á móti, lánin hækka, þá hækkar vísitalan og við lendum í eins konar hringiðu og í raun verður kaupmáttarrýrnun þegar upp er staðið.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að við séum hugsanlega að sogast inn í þann feril að það gæti jafnvel orðið kaupmáttarrýrnun þegar öllu er á botninn hvolft. Nú hefur komið fram að á milli áranna 2010 og 2011 varð kaupmáttarrýrnun hjá heimilunum.