140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:58]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er rétt eins og kom fram í máli mínu áðan og hv. þm. nefndi í andsvarinu að stærsti hluti af þeirri útgjaldaaukningu sem finna má í fjáraukalagafrumvarpinu er vegna gerðra kjarasamninga. Það eru margir þeirrar skoðunar, bæði hér á þingi og utan þings, að gengið hafi verið of langt og ekki sé innstæða fyrir þeim kjarasamningum sem voru gerðir, í það minnsta af hálfu ríkisins.

Ég tel að þegar allt er samanlagt, þ.e. bæði efnahagslegir, félagslegir og samfélagslegir þættir, sé innstæða fyrir því að geta gert kjarasamning. Ég held að við getum öll verið sammála um að ólíkt betra er að vera í samfélagi þar sem friður er á vinnumarkaði og ekki standa yfir deilur. Það er búið að mynda ákveðið rými, bæði fyrir launafólk, ríkið, atvinnurekendur og sveitarfélögin, til að horfa aðeins fram í tímann og reyna að undirbúa sig fyrir næstu skref.

Það fylgdi kaupmáttaraukning þeim kjarasamningum sem voru gerðir í sumar. Í dag er kaupmáttaraukning umfram verðlag, það sem af er þessu ári. Það kemur líka meira til. Ríkið hefur t.d. aukið í bótakerfi og sérstakar vaxtabætur sem ráðist var í, í samstarfi við fjármálafyrirtæki sem þó hafa nú ekki að öllu staðið við sinn hlut, þannig að hægt hefur verið að grípa til hliðarráðstafana til að verja kaupmáttinn. Það er vissulega hætta á því, það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kom inn á, að við lendum í þeim vítahring sem við höfum áður lent í hér á landi ef við gætum okkar ekki. Ég held að sú hætta sé ekki fyrir hendi eða sé léttvæg sem stendur og vægi þess að gera kjarasamninga hafi verið meira en að gera þá ekki.