140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2011 í 1. umr. Hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir því í morgun. Ég tel mjög mikilvægt að þetta frumvarp verði tekið til rækilegrar skoðunar og yfirferðar eins og endranær í hv. fjárlaganefnd. Það eru margar spurningar sem vakna þegar maður sér ákveðna liði í frumvarpinu og ég tel mjög mikilvægt að fagráðuneytin svari fyrir þá til viðbótar við hæstv. fjármálaráðherra.

Ef farið er í það sem kemur fram er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs aukist um 20 milljarða eða um það bil 20,5 milljarða þegar búið er að draga frá þau vaxtagjöld sem koma til frádráttar vegna þess að vextir hafa ekki hækkað eins mikið í heiminum eða kjörin hafa verið betri en reiknað var með í fjárlögum fyrir árið 2011. Það er mikið áhyggjuefni að fjárútlát eða fjárheimildir skuli fara svo mikið fram úr áætlun, um rúma 20 milljarða, þó svo að hafa verði í huga að kannski stærsti hlutinn skýrist af gerð kjarasamninga. Auðvitað er mikilvægt að hafa hugfast hversu verðmætt það er og mikilvægt að hafa frið á vinnumarkaðnum og svo verðum við líka að gera okkur grein fyrir því að tekjur aukast um rúma 10 milljarða til viðbótar því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum árið 2011. Það er að stærstum hluta vegna einmitt kjarasamninganna, þ.e. við gerð kjarasamninganna, sem voru reyndar mjög framhlaðnir með eingreiðslum, jukust skatttekjur bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Það er því mjög mikilvægt að hv. fjárlaganefnd fari vel yfir það hver í raun og veru nettóáhrif kjarasamninganna eru á útkomu ríkissjóðs.

Það er líka athyglisvert og staðfestir endanlega þar sem hefur komið fram í yfirliti frá Fjársýslu ríkisins að Sjúkratryggingar Íslands fara tæpa 3 milljarða umfram það sem þeim var ætlað. Ég vil rifja upp að það er í raun og veru nokkuð sem hv. Alþingi vissi þegar fjárlög fyrir árið 2011 voru samþykkt. Forstjóri Sjúkratrygginga kom þeim skilaboðum mjög skýrt á framfæri að ef fjárlögin ættu að samþykkjast eins og þau voru gerð fyrir árið 2011 kallaði það á lagabreytingar frá Alþingi, Alþingi yrði að fylgja því eftir að breyta lögum og umhverfi þeirrar stofnunar til þess að hún gæti haldið sig innan ramma fjárlaga, öðruvísi væri það ekki hægt. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Þá getur maður velt því fyrir sér hve mikils virði gæði fjárlaga eru þegar hv. Alþingi samþykkir fjárlögin í desembermánuði 2010 fyrir árið 2011 vitandi að ekki hafa verið gerðar lagabreytingar sem kalla á þann sparnað sem gerð var niðurskurðarkrafa til Sjúkratrygginga um, en það er ekki gert. Þetta verðum við að ræða þegar verið er að setja niðurskurðarkröfur, sem endalaust er síðan hægt að deila um hvort séu 1,5% á velferðarmál eða 3% á stjórnsýslu og þar fram eftir götunum, því að það er mjög mikilvægt að þær gangi jafnt yfir alla. Ef hagræðingarkrafa er til að mynda sett á Landspítalann upp á 1,5% þá er mjög mikilvægt, þar sem Landspítalinn hefur staðið sig mjög vel að undanförnu, ef hann nær þeirri hagræðingarkröfu að jafnt gangi yfir allar stofnanir.

Við getum tekið langa umræðu um fjáraukalög fyrir árið 2011 og líka fjárlög fyrir árið 2011. Þar er nokkuð sem ég hef gagnrýnt mjög mikið og skil ekki af hverju er ekki breytt, mér er það lífsins ómögulegt. Þá á ég við heimild 6. gr. Ef við tökum heimild 6. gr. eins og hún var í fjárlögum fyrir árið 2011 erum við þar með nákvæmlega 330 milljónir; hún er 320 milljónir fyrir árið 2012. Í þeirri heimild eru talin upp verkefni sem skipta tugum milljarða. Það kemur líka fram í fjáraukalagafrumvarpinu, sem ég ætla aðeins að fara yfir vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir hv. Alþingi að átta sig á því, að niðurstaðan er sú að halli á ríkissjóði verður 42 milljarðar. Hallinn eykst um 4 milljarða frá því sem var gert ráð fyrir í fjárlögum. Menn geta diskúterað það og sagt að hallinn sé í raun og veru ekki mikill miðað við undanfarin ár og rætt það endalaust, en ég ætla að sleppa því. Ég er alveg klár á því að hallinn á árinu 2011 verður miklu meiri. Á því eru að mínu mati eðlilegar skýringar vegna þess að í því fjáraukalagafrumvarpi sem við ræðum er búið að færa texta í heimild 6. gr. en ekki tölur. Þar kemur skýrt fram að út af því sem hefur verið rætt hér fyrr í dag, eins og til að mynda sparisjóðurinn í Keflavík og Byr og þar fram eftir götunum, eigi kannski eftir að koma tugir milljarða. Niðurstaða fjárlaga ársins 2011 er því ekki rétt í tölulegu samhengi. Hér er texti sem segir okkur að þetta muni hugsanlega gerast, settar ákveðnar tölur um það, og mér finnst eðlilegra að við ræðum þá þann halla sem klárlega verður á rekstri ríkisins. Ég veit ekki af hverju þetta er með þessum hætti og skil það reyndar ekki. Ég held að við horfum í ákveðinni sjálfsblekkingu á þessa niðurstöðu en í raun og veru er hún allt önnur.

Ég hef ákveðnar efasemdir um það að allir hv. þingmenn geri sér grein fyrir því hver niðurstaðan er í rauninni, enda hefur það sést í öllum umræðum frá því ég kom á þing fyrir rúmum tveimur árum, hvort heldur um er að ræða fjárlög eða fjáraukalög, að salurinn er alltaf tómur. Það er enginn áhugi á þessu. Ég veit ekki hvort fólk er að fylgjast með á skrifstofunum eða hvar sem það er, það er alltaf tómur salur, örfáir þingmenn. Hér er hv. þm. Pétur Blöndal, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, hæstv. velferðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra er búinn að vera hér í allan morgun og ég þykist vita að sé hér skammt undan en hann hefur alla tíð tekið mikinn þátt í umræðunni um fjárlögin. Ég er ekkert viss um að allir átti sig á því hvað það þýðir í raun og veru að samþykkja þessi fjáraukalög. Mér finnst vera ákveðin sjálfsblekking fólgin í að við vitum ekki niðurstöðuna fyrr en við fáum ríkisreikning fyrir árið 2011. Þá velti ég upp því sem margoft hefur komið fram, að við erum farin að meðhöndla ríkisreikning sem eiginlega önnur fjáraukalög. Þar eru farið í fullt af breytingum, stofnanir lagaðar til — stofnanir sem eru á fjárlagalið — og menn rífast um það hvort eigi að setja örfáum milljónum meira þar eða hér, en síðan þegar menn fá heildaryfirlitið í ríkisreikningi er talað um milljarða á milljarða ofan sem verið er að færa til og niðurstaðan sýnir. Ég tel því mikilvægt að breyting verði á hér á Alþingi og menn taki þátt í þessari umræðu og átti sig þá á stöðunni, flytji ræður og fari í andsvör um það sem þetta snýst um.

Nú ætla ég að rökstyðja þetta aðeins frekar. Við erum með heimild í 6. gr. sem ég hef gagnrýnt alveg frá því ég kom á þing. Á þeim fjárlagalið eru rúmar 300 milljónir. Síðan kemur að því að samþykkja þetta fjáraukalagafrumvarp. Sumir hafa reyndar sett spurningarmerki við það eins og hv. þm. Pétur Blöndal sem hefur margoft sagt að ekki megi greiða fé úr ríkissjóði nema hafa til þess heimildir með tölulegum staðreyndum en ekki textalögum og hefur haldið fram að það stangaðist á við stjórnarskrá. Eigi að síður erum við hér með texta um tugmilljarða tilfærslu á fjármunum, þ.e. tugir milljarða munu klárlega lenda á ríkissjóði. Ég hefði talið eðlilegri vinnubrögð að færi inn það sem menn áætluðu að mundi t.d. falla út af Sparisjóði Keflavíkur sem var rætt mikið á undanförnum vikum. Ég held að það sé bara ein leið til þess að leysa þann ágreining sem alltaf er verið að tala um í þessu sambandi. Ég mun á fundi fjárlaganefndar í fyrramálið leggja fram beiðni um að Ríkisendurskoðun verði falið að fara sjálfstætt yfir það mál og skila skýrslu til fjárlaganefndar fyrir 2. umr. fjáraukalaga (HöskÞ: Innan eins árs.) sem er eftir rúman mánuð. Ég tel það mikilvægt þannig að menn séu ekki að rífast og pexa um hvernig að þessu var staðið. Var eðlilega að þessu staðið? Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það. Ég tel að skoða þurfi marga hluti þar og það eru eðlilegar skýringar á því. Það hlýtur að vera best fyrir alla að málið sé skoðað sérstaklega. Ég minni á skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ríkisreiknings 2009 þar sem var einmitt sett töluvert út á það sem gerðist bæði hjá Arion banka og Íslandsbanka, af því verðum við að læra.

Það sem liggur fyrir er að það mun verða meiri halli á ríkissjóði þegar ríkisreikningur fyrir árið 2011 verður lagður fram. Það er að minnsta kosti mín skoðun. Það leynir sér ekkert. Síðan segir hæstv. fjármálaráðherra í morgun að það sé ekki vitað — en það kemur fram í textanum sem ég er að vitna í og þarf held ég að ræða og verður væntanlega gert í hv. fjárlaganefnd — annaðhvort fáist niðurstaða í málið í haust eða vetur. Menn velta fyrir sér: Eigum við að setja þetta sem fjáraukalög á árinu 2012 eða í fjáraukann 2011? Hvar verða skilin þarna á milli? Það getur verið að þetta verði gert eftir að búið er að samþykkja fjáraukalögin en áður en búið er að samþykkja fjárlögin þannig að þá sé hægt að bæta því við fjárlögin. Um þetta fjalla hlutirnir. Þetta er verkefnið sem blasir við.

Síðan finnst mér mikilvægt að hv. fjárlaganefnd fari mjög vel yfir þær skuldbindingar sem þarna eru. Það kemur t.d. fram í þeim heimildum sem verið er að fjalla um að þær skipta tugum milljarða. Þær koma fram í texta en ekki er búið að sýna fram á neinar tölur, enda kannski ekki vitað hverjar þær verða endanlega.

Mig langar að benda á breytingu sem gerð er í þessu fjáraukalagafrumvarpi þar sem verið er að tala um að hækka stofnfé Þróunarbanka Evrópuráðsins um 2,2 milljarða evra og að hlutur íslenska ríkisins nemi í aukningu rúmlega 4 millj. evra. Ekki er gert ráð fyrir því að aðildarríkin leggi fram fjármagn heldur verði hluti aukningarinnar í formi aukningar á stofnfjárloforðum — stofn-fjár-loforðum. Nú erum við með tvær svona greinar hér inni. Í annarri er gengið á eigið fé bankans en í hinni er stofnfjárloforð. Ég hefði viljað sjá fært inn hvað þetta þýðir í raun og veru. Reiknað er með hluta af stofnfjáraukningunni, ég veit ekkert hvað það er stór hluti. Þetta eru upplýsingar sem ég tel mjög mikilvægt að verði farið yfir í meðförum hv. fjárlaganefndar, enda þykist ég vita og treysti að það verði gert hér eftir sem hingað til.

Það er margt sem maður vill ræða og kemst svo sem ekki yfir á þessum stutta tíma. En það er mjög mikilvægt að við fáum yfirlit yfir heildarskuldbindingar íslenska ríkisins eða ríkissjóðs, líka þær sem liggur fyrir að gætu hugsanlega fallið á ríkissjóð til þess einmitt að varast að fá eitthvað í bakið sem kemur öllum á óvart sem við höfum svo oft lent í. Það eru rosalega þung og erfið skref fram undan við að ná jöfnuði á ríkissjóði. Við verðum að vanda okkur hvort heldur sem við erum að tala um þær fjárhæðir eða þá fjárlagaramma sem við ákveðum fyrir viðkomandi stofnanir og ætlumst til að verði farið eftir eða tekjuhliðina. Þetta ásamt mörgu öðru hlakka ég til að fara yfir í hv. fjárlaganefnd og sé ekki ástæðu til að fara frekar yfir hér enda er tími minn búinn.