140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að taka umræðu um þessi grundvallaratriði í fjárlagagerðinni og eftirfylgni með fjárreiðum ríkisins því hér á Íslandi hefur verið landlæg óstjórn í efnahagsmálum. Hún hefur verið af ýmsum toga, oft pólitískum. Hún hefur líka haft með gengi gjaldmiðilsins að gera. Ýmsir þættir koma þar til. Ég held að við sem erum kjörin hér af kjósendum til að fara m.a. með fjárreiður ríkisins verðum að taka það hlutverk miklu alvarlegar en gert hefur verið í þessum þingsal. Hv. þingmenn hafa að sjálfsögðu margir hverjir í gegnum tíðina tekið hlutverk sitt alvarlega en það hefur kannski verið svo að alþingismenn hafi ekki séð skóginn fyrir trjánum þegar kemur að fjárlagagerð. Ég lít á það sem mikilvægt hlutverk þess Alþingis sem hér var kjörið í kjölfar efnahagshrunsins, að snúa af þeirri braut og taka af miklu meiri festu og aga á þessum málum.

Ég vil nota tækifærið, frú forseti, til að fagna skipan fjárlaganefndar, að því undanskildu að í henni eru reyndar allt of margir karlar, en þarna eru samankomnir einstaklingar sem sannarlega hafa áhuga á þessum málefnum. Nú reynir á að við höfum manndóm í okkur til að fylgja eftir því áliti sem við gátum sameinast um. Ég fagna því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur verið mjög málefnalegur í þessu starfi og ég veit að hann mun gera allt sem í hans valdi stendur til að við breytum málum til betra horfs.