140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég næ ekki að átta mig á einu, ég veit ekki hvort hv. þingmaður getur upplýst mig um það. Hv. þingmaður bendir réttilega á að gerð er athugasemd við þetta alveg frá því í september 2008. Síðan yfirtekur Fjármálaeftirlitið reksturinn á sparisjóðnum frá og með 22. apríl 2010. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort eignasafnið sem deilan stendur um, sem hefur rýrnað, rýrnaði á þessum tíma frá því Fjármálaeftirlitið tók sparisjóðinn yfir, eða var það þegar það var fært yfir frá þeim tíma. Varð þessi rýrnun á safninu á þeim tíma sem bankinn var í rekstri og undir handleiðslu og eftirliti Fjármálaeftirlitsins, eða var hún til staðar fyrir? Mig langar að athuga hvort hv. þingmaður getur svarað mér því, hvort það sé þannig.

Mér finnst líka alveg ótrúlegt að þessi mikli ágreiningur skuli vera um virði eignasafnsins og að það skuli hlaupa á, eins og komið hefur fram hjá Landsbankanum, 30 milljörðum. Þetta eru engar smátölur. Það er kannski sagt í texta í frumvarpinu en kemur ekki fram í tölum hver raunveruleg niðurstaða reksturs ríkissjóðs á árinu 2011 verður, ekki fyrr en við fáum ríkisreikning 2011. Skýringin er sú, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði hér áðan, að menn vildu ekki vera að sýna á spilin. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður ekki að fjármálaráðuneytið, Bankasýslan eða hver sem vílar um þessi mál við Landsbankann hafi þegar gefið upp hugmyndir um hve miklu minna virði eignasafnið er, og hverju skeiki? Finnst honum þá ekki eðlilegt að það komi fram í þessum tölum í fjáraukalagafrumvarpinu?