140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:51]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið við því hvort ég hafi áhyggjur af þessu bili, að það sé orðið of lítið, er nei. Ég hef tjáð mig klárt um það að það eigi ekki að reyna að svelta fólk til vinnu.

Aftur á móti er alveg klárt að við þurfum að fylgja því miklu betur eftir að fólk þiggi vinnu og það sé val. Við erum að tryggja ákveðna lágmarksframfærslu og hana eigum við að tryggja en það þýðir ekki að fólk eigi að koma sér hjá því að fara í vinnu vegna þess að við búum vel að því eða reynum að gera það. Við búum svo sem ekkert sérlega vel að því en eins vel og við getum til að tryggja að það geti lifað af þeim bótum sem þarna eru.

Það fólk sem núna fær 161 þús. kr. í atvinnuleysisbætur var margt með tekjur upp á 400–500 þús. og margt með 200–300 þús. líka, og það er ekki í öfundsverðu hlutverki að reyna að lifa af því, það er útilokað nánast. Það þarf bara miklu, miklu stífari reglur um það að menn verði að þiggja vinnu og svo verðum við að treysta á það og það er auðvitað að gerast að lægstu launin eru að fara upp, lágmarkstryggingin er komin í 187–188 þús. núna, ef ég man rétt, fyrir hækkunina á næsta ári. Á sama tíma er það ánægjulegt auðvitað að bótaflokkarnir okkar hafa verið með lágmarkstryggingu upp á 196 þús. og fara væntanlega yfir 200 þús. á nýju ári.

Svar mitt er því afdráttarlaust nei. En það þarf auðvitað að fylgjast með svartri atvinnustarfsemi og að menn komi sér hjá kostnaði. Og það er alveg rétt sem hér kom fram að einhverjir hafa kannski betri afkomu á atvinnuleysisbótum en á lægstu launum þurfandi ekki að borga þá leikskólapláss o.s.frv. Reglurnar eru þó þannig að viðkomandi verður að vera með leikskólapláss til að geta verið á bótum eða pössun til að geta verið tilbúinn að fara á vinnumarkaðinn. Ég held að regluverkinu þurfi að fylgja vel eftir en bæturnar og munurinn þarna á milli er ekki of lítill.