140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla enn og aftur að spyrja sömu spurningarinnar og ég mun spyrja þangað til ég fæ svar. Ég les aftur yfirlýsingu fjármálaráðuneytisins. Þar segir frá 15. október, með leyfi forseta:

„… verður eign Byrs sparisjóðs enn í vörslu og umsjón fjármálaráðuneytisins í samstarfi við slitastjórn Byrs sparisjóðs þar til slitastjórnin kallar eftir honum. Miðað er við að það gerist innan tveggja ára.“

Ég hef spurt hæstv. ráðherra: Af hverju var þetta samkomulag gert? Það er náttúrlega augljóst að þetta er í vörslu og umsjá fjármálaráðuneytisins en ekki Bankasýslunnar — Bankasýslan fer ekki með þetta eins og hjá hinum bönkunum heldur hæstv. fjármálaráðherra. Það kom fram hjá FME að það væri ekki heimilt að slitastjórnin tæki yfir bankann. Ég spyr því enn og aftur: Af hverju var þetta samkomulag gert þegar það er ekki heimilt? Ég spyr vegna þess að Byr sparisjóður er í vörslu og umsjón fjármálaráðuneytisins. Ég veit alveg hvar leyfisveitingarnar eru en þetta er í vörslu og umsjón fjármálaráðuneytisins og hæstv. fjármálaráðherra getur ekki látið eins og hann hafi ekki vitað af því að banki sem var í vörslu og umsjón hans sjálfs og skilaði ekki ársreikningi — við höfum ekki séð stofnefnahagsreikninginn — hafi ekki uppfyllt lögbundin skilyrði. Hann getur ekki bara bent á eftirlitsaðilann. Ég skal alveg spyrja eftirlitsaðilann, hæstv. ráðherra þarf ekki að hafa áhyggjur af því, en hæstv. ráðherra sem hefur sjálfur sagt þetta vera í sinni vörslu og umsjón, ekki Bankasýslunnar eða neins annars, verður að svara þessum spurningum.