140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp á þingi. Ég held að við séum öll þannig gerð að það stingur okkur þegar við heyrum um slæma meðferð á dýrum, hvort sem það eru gæludýr eða búpeningur sem alinn er upp í framleiðsluskyni. Við erum minnug þess að dýrin eru málleysingjar gagnvart okkur, geta alla vega ekki tjáð sig með orðum varðandi aðbúnað og umgengni. Þess vegna er það skylda okkar að sjá til þess að svo sé um búið sem best verður á kosið í þessum efnum.

Það er alveg sama hvort við erum framleiðendur á landbúnaðarvörum eða hvort við eigum dýr einungis okkur til ánægju, þá er það frumskylda að góðs aðbúnaðar sé gætt. Við framleiðslu á vörum skiptir hver hlekkur í þeirri framleiðslu máli. Við þurfum að geta horfst í augu við hvern hlekk, við skulum bara taka blessað lambakjötið sem dæmi; allt frá getnaði, fæðingu, meðferð á sauðburði, meðferð í haganum, þegar féð kemur af fjalli og meðferð þess allt að göngum og réttum og til slátrunar. Allur ferillinn, hvert einstakt skref, verður að vera með þeim hætti að við getum staðið stolt frammi fyrir hverju einasta af þessum atriðum og sagt: Við höfum staðið vörð um þessa þætti, um dýravelferðina og siðferðislega þætti.

Það er alveg hárrétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að lagalega séð hefur þessi málaflokkur heyrt undir tvenn lög, annars vegar dýraverndarlögin, sem verið hafa á forsjá umhverfisráðuneytisins og umhverfisstofnunar, og hins vegar lög um búfjárhald sem verið hafa á forsjá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis.

Sú verkaskipting hefur á vissan hátt torveldað að byggja upp það nauðsynlega eftirlit sem þessi atriði þurfa öll að búa við. Engu að síður bera sérfræðingar á vegum landbúnaðarráðuneytis ábyrgð á báðum þessum hlutum í gegnum Matvælastofnun.

Það er alveg hárrétt að núna liggur fyrir að vinna frumvarp á grundvelli nefndar sem vann að þessum málum. Það er frumvarp um dýravelferð sem tekur á öllum þessum þáttum sameiginlega. Þar er gert ráð fyrir því að þessir málaflokkar séu allir færðir undir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið og að megineftirlitið sé hjá sérfræðingum Matvælastofnunar. Að vísu er gert ráð fyrir tvennum lögum, annars vegar lögum sem lúta að almennri dýravelferð og hins vegar breytingum á lögum um búfjárhald.

Ég tel að það sé mikil framför að því að setja þessi mál undir einn lagabálk.

Hv. þingmaður víkur að ýmsum atriðum varðandi þetta mál. Ég vil undirstrika að verið er að breyta hugtaki. Alþingi fær málið til meðferðar, en þar er breytt um hugtak og notað dýravelferð í frumvarpsdrögunum og tekið fram að það sé markmið að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr séu skyni gæddar verur, eins og segir í tillögutextanum. Það er breyting á nálgun málsins.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þessi málaflokkur þarf að fá verðugan og öflugan sess í íslenskri stjórnsýslu og þar þarf að vera hægt að fylgja eftir eftirliti og viðurlögum ef út af er brugðið.

Það er alveg klárt að meginþorri allra sem fara með dýr, hvort sem það eru gæludýr eða skepnur í búskap, fara vel með þau, verum þess minnug. Hins vegar eru þau einstöku undantekningartilvik sem upp koma of mörg. Þau eru ekki aðeins slæm vegna þeirrar illu meðferðar sem dýrin fá heldur eru þau líka slæm fyrir þá ímynd sem við viljum öll standa fyrir varðandi meðferð á dýrum. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Varðandi beinu spurningarnar sem hv. þingmaður kom fram með (Forseti hringir.) svara ég þeim í seinni ræðu.