140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:33]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér er vakin upp um dýravelferð og dýravernd sem svo sannarlega er olnbogabarn í samfélagi okkar, í löggjöfinni og innan stjórnsýslunnar. Okkur berast ítrekað fréttir af illri meðferð dýra sem vekja hneykslun og furðu, ekki bara vegna meðferðarinnar á dýrunum heldur líka vegna aðgerðaleysis og úrræðaleysis eða deyfðar hins opinbera við að rannsaka og bregðast við slíkum málum. Í öllum sveitarfélögum eru starfandi nefndir sem hafa aðhalds- og eftirlitshlutverk í ákveðnum málaflokkum. Þær láta stundum hart til sín taka, t.d. ef upp kemst að kvenfélög séu að selja heimabakkelsi í góðgerðarskyni. Maður hefur aldrei heyrt um slíkt írafár vegna meðferðar á dýrum enda eru engar dýraverndarnefndir í sveitarfélögum landsins og hér á landi er engin dýralögregla eins og t.d. í Svíþjóð og dýrahald er ekki háð leyfisveitingum nema í fáum tilvikum.

Siðað samfélag lætur sig varða velferð alls sem lifir. Dýr eru ekki aðeins hluti af náttúrunni, þau eru í stórum mæli skjólstæðingar manna, okkar þörfustu þjónar, bestu vinir og hjá bændum forðabú á fæti. Siðferði manns má oft marka á því hvernig hann kemur fram við þá sem þarfnast verndar og eiga sér ekki málsvara. Sama hlýtur þá að eiga við um samfélög.

Nú stendur fyrir dyrum heildarendurskoðun á dýraverndarlöggjöfinni í samráði við ýmsa aðila. Það er vonum seinna að löggjöfin frá 1994 verði endurskoðuð og endurbætt. Það á að vera okkur metnaðarmál að skapa sterka og mannúðlega löggjöf um verndun og umhirðu dýra og skapa skýran og afdráttarlausan stjórnsýsluramma, afdráttarlaus viðurlög og úrræði í málefnum sem lúta að velferð dýra.

Ég gef lítið fyrir það (Forseti hringir.) hvort forræðið eigi að vera á hendi umhverfisráðuneytis (Forseti hringir.) eða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, mest er um vert að þessum málaflokki sé sinnt.