140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:43]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem er svo sannarlega þörf. Í mínum huga snýst dýravernd um góða umhirðu dýra og að þeim séu sköpuð eðlileg skilyrði til lífs og viðgangs. Að sjálfsögðu snýst hún líka um að við grípum til sérstakra aðgerða þegar útrýmingarhætta er til staðar. En það sem skiptir máli er að til að fá að halda dýr er eðlilegt að krefjast tilskilinna leyfa sem byggð eru á mjög ákveðnum skilyrðum, lagaramma og vinnureglum. Lagarammi og vinnureglur eru skilyrði þess að eðlilegt og skilvirkt eftirlit geti farið fram þannig að við höfum í höndunum tæki til að grípa inn í og beita viðurlögum þegar vanhöld koma í ljós, sem því miður gerist stundum. Þó langflestir séu með dýrahald sitt í góðu lagi koma vanhöld því miður stundum í ljós. Talsvert hefur verið kvartað undan því að tækin skorti til að grípa inn í þegar þarf og á þessu þurfum við svo sannarlega að taka.

Einnig má benda á, eins og fram hefur komið í umræðunni, nauðsyn þess að dýralæknar séu til staðar í viðunandi fjarlægð og starfsskilyrði þeirra séu þokkaleg svo að þeir geti sinnt heilbrigðisþjónustu dýra, en sjálfsögðu eru umræður um dýralækna efni í heila aðra umræðu.

Til þess að dýrahald sé með heilbrigðum hætti þarf að vera til staðar aðbúnaður og eðlileg skilyrði fyrir þann sem heldur dýr, skýr lagarammi og tæki til eftirlits og eftirfylgdar. Með þeim hætti er sú ánægja sem fylgir dýrahaldi tryggð, hvort heldur sem er eingöngu til ánægju eða öryggis eða atvinnu. Matvæli í hæsta gæðaflokki og öryggi á því sviði eru einnig hluti af þessu máli. (Forseti hringir.) Það þarf að skoða málið heildstætt í góðri samvinnu allra hlutaðeigandi aðila, dýrahaldi á landinu til farsældar.