140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem eru margslungin og hafa margar hliðar. Umhirða og umgengni við dýr, hvort sem það eru gæludýr eða búfénaður, þurfa að vera í lagi og þarf að vera eftirlit með slíku þannig að það sé eins og eins og við viljum að það sé. Víða í sveitarfélögum hafa landbúnaðarnefndir og starfsmenn þeirra það á sinni könnu að fylgja slíku eftir og á mörgum stöðum eru þessi mál í ágætu lagi en auðvitað er víða pottur brotinn í þessu eins og öðru.

Það eru þrjótar og skúrkar í þessu eins og öllu öðru. Þá þurfum við að finna og ná tökum á þessum málum með einhverjum hætti. En eins og ég sagði hefur velferð og umhirða dýra ýmsar hliðar. Ein er heilbrigði dýranna. Við þurfum að tryggja að bústofnar eða gæludýr á Íslandi njóti besta umhverfis og séu heilnæm og heilbrigð, að ofan á slæma umgengni og umhirðu leggist ekki sjúkdómar sem við höfum ekki áður þekkt. Við munum eftir hestapestinni, sem við köllum svo, sem lagðist á hross á Íslandi. Það þarf engum að dyljast að sú pest, þótt hún hafi gengið yfir, var skepnunum kvalafull og reyndi á þær.

Í því sambandi vil ég nefna að þær hugmyndir sem uppi hafa verið um að opna landið fyrir innflutningi á lifandi dýrum, búfénaði og gæludýrum eða einhverju öðru, sem auka mun líkurnar stórlega á því að hér hellist yfir sjúkdómar sem við höfum ekki áður þekkt.

Ég fann álit sem kom frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem talað var um að á Íslandi hefðu ekki komið upp hættulegir smitsjúkdómar í dýrum síðastliðin 50 ár. Viljum við opna fyrir innflutning á dýrum og taka áhættu af slíku? Það tengist allt umræðunni um heilbrigði og velferð dýra. Ég segi nei. Við eigum að vernda bústofna og gæludýr okkar fyrir slíku. (Forseti hringir.)