140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:14]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður ítrekar það sem er í rauninni kjarni málsins. Þó að ríkisstjórnin og sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra tali mikið um að hér hafi náðst stöðugleiki þá felur sá stöðugleiki ekki í sér þann vöxt sem við þurfum á að halda heldur er hann þvert á móti stöðugleiki sem felur í sér stöðnun. Í rauninni er algert frost ríkjandi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það má svo sem segja að í algeru frosti ríki stöðugleiki. Ég gæti staðið hér frosinn en það kæmi mjög lítið út úr því þótt mætti kalla það stöðugleika. Ég held að vandinn í málflutningi ríkisstjórnarinnar sé sá að hún er að blanda saman tveimur ólíkum hlutum, annars vegar stöðugleika þar sem eiga sér stað framfarir og uppbygging og hins vegar stöðnun. Stöðugleiki og stöðnun er tvennt ólíkt þegar kemur að efnahagsmálum.

Við mælum hér fyrir stöðugleika sem býr til þær aðstæður að menn geti byggt upp því að stöðnun leiðir til lengri tíma litið alltaf til afturfarar. Það er ekki hægt að viðhalda stöðnun í efnahagslífi. Afleiðingin er sú sem hv. þingmaður kom aðeins inn á áðan: Fólk flytur úr landi, skatttekjur dragast saman og þótt skatthlutfallið sé hækkað aftur og aftur dragast tekjurnar samt saman vegna þess að annaðhvort miðar okkur nokkuð á leið í efnahagsmálum eða aftur á bak. Það sýnir ekki bara reynsla okkar Íslendinga heldur þjóða almennt. Þess vegna er stöðnun í efnahagsmálum ekki valkostur en stöðugleiki nauðsynlegur.