140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:17]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þetta prýðisgóða seinna andsvar. Það var mjög gott að hv. þingmaður skyldi nefna stöðu sveitarfélaganna í þessu sambandi. Það fer vel á því því að nú stendur yfir fjármálaráðstefna sveitarstjórnarmanna þar sem þessi atriði eru auðvitað efst á baugi. Staða sveitarfélaganna er sérstakt áhyggjuefni reyndar og full ástæða til að taka sérstaka umræðu um hana.

Annað mjög áhugavert sem hv. þingmaður benti á var þessi fyrir fram greiddi skattur stóriðjufyrirtækjanna. Ég held hreinlega að ríkisstjórnin hafi verið búin að gleyma því að hún er búin að innheimta þennan skatt fyrir fram miðað við þær forsendur sem hún hefur gefið sér síðustu missirin þar sem gert er ráð fyrir svo og svo miklum tekjum af skattlagningu þessara fyrirtækja, ekki nema hún ætli sér hreinlega að svíkja það samkomulag sem var gert við fyrirtækin og leggja á þau nýja skatta í staðinn fyrir þá skatta sem hafa verið greiddir fyrir fram. (Forseti hringir.) Það væri náttúrlega eftir öðru.