140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:33]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmönnum Framsóknarflokksins og sérstaklega hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, fyrir að flytja þessa tillögu og leggja í hana vinnu. Það er mikils virði að stjórnmálaflokkar í stjórn og stjórnarandstöðu ræði saman um stefnu í efnahagsmálum, stöðugleika í efnahagsmálum. Ég vil líka segja að ég held að þessi tillaga sýni nú að það er gríðarlega mikill samhljómur um meginlínur í efnahagsmálum og um þróunina áfram og satt að segja miklu meiri en maður gæti látið sig dreyma um ef tekið er mark á því stóryrðaglamri sem í allt of miklum mæli einkennir umræðu í þessum sal milli flokka. Það kemur með öðrum orðum í ljós þegar framsóknarmenn setja fram sína stefnu með yfirveguðum hætti að það er ekki svo mikið bil á milli. Undir flest af þessu get ég tekið heils hugar og er með nokkrar efnislegar ábendingar sem ég vildi gjarnan fá að nefna en ég lýsi almennt ánægju með þetta plagg. Þetta sýnir að við þurfum að gera stóryrðin útlæg úr stjórnmálunum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka þetta í nokkuð annarri röð en hv. þingmaður fór yfir málið. Í fyrsta lagi vil ég ræða ríkisfjármálin og umfjöllunina sem þarna er um ríkisfjármálin. Það er afskaplega mikilvægt að sjá að framsóknarmenn setja fram það skýra stefnumið að almennt verði óheimilt að reka ríkissjóð og sveitarfélög með halla nema í sérstökum undantekningartilvikum. Agi í ríkisrekstri er settur fram sem sjálfstætt markmið. Það er afskaplega mikilvægt og önnur markmið sett fram sem eru mjög í samræmi við þá vinnu sem við höfum verið að vinna, t.d. að lengja áætlunargerð í ríkisfjármálum og horfurnar í ríkisfjármálaáætlun.

Í 5. lið umfjöllunar um ríkisfjármál nefna þingmennirnir þó endurskipulagningu ríkiskerfisins með það að markmiði að lækka raunkostnað í rekstri og þá verði hins vegar forgangsraðað þannig að staðinn sé vörður um mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi. Ég skil alveg góðan vilja þarna en ég vil hvetja framsóknarmenn til að vera nokkuð metnaðarfyllri í endurskipulagningu í ríkisrekstri en þetta. Ef menn ætla að standa vörð um heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi þá verða þeir að standa vörð um meira en 75% ríkisútgjalda. Afgangurinn er þegar búinn að taka á sig mjög mikinn niðurskurð, miklu meiri en velferðargeirinn og í fullri einlægni segi ég það að það er engin leið að skera meira niður nema með því að standa einmitt ekki vörð um kerfi, ekki vörð um stofnanir heldur um þjónustu og finna nýjar og ódýrari leiðir til að veita hana. Það hlýtur að vera markmiðið að fækka stofnunum, einfalda rekstrarumgjörðina og tryggja fólki sömu réttindi með minni tilkostnaði.

Í ljósi þessarar umfjöllunar er mjög gott að sjá umfjöllunina um endurskipulagningu skulda því að það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn rekur þá meginreglu að ríkissjóður verði ekki rekinn með halla og það þýðir auðvitað að hann er ekki að fara að leggja byrðar á ríkissjóð vegna skuldaúrvinnslu. Það er mjög mikilvægt að sjá að þó að framsóknarmenn ítreki hér að það beri að nýta svigrúm til almennra leiðréttinga á skuldum gera þeir ekki ráð fyrir að það verði gert með ríkispeningum. Það er þakkarvert og mjög mikilvæg tímamót í þessari umræðu sem hingað til hefur verið allt of glamur kennd varðandi það að menn hafa gefið því undir fótinn að ríkisvæðing skulda sumra sé raunverulegur valkostur við úrlausn skuldamála. Hér er sagt að það eigi að nýta svigrúm fjármálastofnana til almennra leiðréttinga skulda eftir því sem kostur er — eftir því sem kostur er. Í því samhengi hljótum við auðvitað að horfa til þess að nú þegar er búið að verja miðað við stofn efnahagsreikningstölu um 1.200 milljörðum af þeim 1.700 sem til ráðstöfunar eru í svigrúminu og allar horfur á að það verði nýtt til fulls og jafnvel gott betur í skuldaúrvinnslu eins og hún liggur fyrir núna í töpuðum kröfum, í endurmati eigna einstaklinga og heimila.

Ég er líka ánægður með áherslurnar á að eignarhald banka á fyrirtækjum verði takmarkað og sölu fyrirtækja í þeirra eigu flýtt. Það er í samræmi við þær áherslur sem við höfum lagt og Samkeppniseftirlitið vinnur eftir núna. Og áherslan á að eyða óvissunni um skuldir heimila og fyrirtækja er svo mikilvæg, ég er mjög ánægður með það að sjá það hér líka. Óvissan er versti óvinur efnahagslegra framfara og efnahagsþróunar áfram. Ef fólk veit ekki hvað það skuldar og fyrirtækin vita ekki hvar þau standa þá er það miklu, miklu verra en hvernig málin eru afgreidd til eða frá. Það verður að afgreiða málin, ljúka þeim hratt og segja: Hér er lokapunkturinn, nú er þetta búið, höldum áfram.

Virðulegi forseti. Síðan er rætt um afnám verðtryggingar í skrefum sem er bara eins og við hefðum skrifað það sjálf, ríkisstjórnin, þ.e. að óverðtryggðum lánakostum verði fjölgað og stutt við fjölgun búsetuforma, svo sem eflingu leigumarkaðar. Ég flutti um þetta frumvarp fyrir 19 mánuðum sem varð loks að lögum í haust um heimildir til óverðtryggðrar útgáfu Íbúðalánasjóðs. Ég fagna mjög þessari samstöðu.

Í gjaldmiðilsmálum og peningamálastefnu er sett metnaðarfullt markmið um afnám gjaldeyrishafta á næsta ári og sjálfsagt að setja sér metnaðarfull markmið. Við höfum verið að vinna í því í góðri samvinnu á undanförnum mánuðum að gera þau markmið skýrari. Við munum gera allt sem við getum til að flýta því. Við verðum líka að vera raunsæ. Það er alveg rétt sem hér var nefnt af hálfu hv. þingmanns að það kunna að verða atvik sem valda því að það verði auðveldara að afnema höft. Það kann líka að vera að þau geri það torveldara. Allt snertir þetta það líka að við gerum allt sem hægt er til að eyða óvissu. Ég fagna því sem hér er líka sagt um þetta að úttekt verði gerð á peningastefnunni og kannaðir framtíðarkostir í gjaldmiðilsmálum. Þar á auðvitað að skoða alla kosti með gaumgæfilegum hætti. En einu komumst við auðvitað aldrei undan og það er sú staðreynd að upptaka einhvers annars gjaldmiðils en íslenskrar krónu felur í sér skuldsetningu þjóðarinnar til að kaupa þann gjaldmiðil og fyrirheit um viðvarandi skuldsetningu þjóðarinnar til að viðhalda nægu framboði á þeim gjaldmiðli ef útflæðisþrýstingur verður úr landinu. Með öðrum orðum, það dugir ekki bara að kaupa nokkra tugi milljarða af Kanadadollurum og flytja þá inn í landið. Við verðum að vera tilbúin að innleysa allar innlendar innstæður fyrir Kanadadollara ef við ætlum ekki að búa til nýjan gjaldmiðil í skjóli hafta. Það er auðvitað sá ótvíræði kostur sem upptaka evru í gegnum aðild að myntbandalagi Evrópu hefur í för með sér að íslensk króna breytist við það í evru og kallar ekki á frekari skuldsetningu þjóðarinnar til að koma á nýju gjaldmiðilsfyrirkomulagi og tryggir meiri væntingar, sérstaklega í ljósi þeirra væntinga sem við höfum nú um meiri aga í ríkisfjármálum á evrusvæðinu, um að við fáum í skiptum fyrir nýjan gjaldmiðil og þann aga sem við munum þá sýna í ríkisfjármálum lægri vaxtakjör.

Í kaflanum um framkvæmdir og atvinnu er ég ánægður með margt. Þar er kallað eftir átaki í framkvæmdum sem opinberir aðilar hafi forustu um eða greiði fyrir. Það höfum við auðvitað gert. Ég átti frumkvæði að því á sínum tíma að við fundum leið til að hrinda af stað miklu átaki í byggingu hjúkrunarheimila vítt og breitt um landið sem einmitt fól það í sér að með lánveitingum frá Íbúðalánasjóði til langs tíma var hægt að fara af stað í framkvæmdir sem ella hefði ekki verið hægt að fara af stað í. Landspítalinn er annað svona verkefni. En vandinn er auðvitað sá að skuldsetningargetu ríkisins eru takmörk sett við þessar aðstæður og við erum auðvitað á barmi þess sem hægt er að setja á ríkið um framtíðarskuldbindingar nema við förum að hætta á það að lánshæfismat ríkisins skaðist af því og þá er líklega ekki verjandi að leggja af stað í verkefnin, þ.e. ef ekki er hægt að tryggja endurgreiðslu þeirra á viðskiptalegum forsendum. Ef beinlínis er bara verið að vísa á skattstofna framtíðarinnar erum við komin að ákveðnum endimörkum.

Ég saknaði samt áherslu þarna á aukna samkeppnishæfni atvinnulífsins. Það er horft á mannfrekar framkvæmdir í bráð en ekki á samkeppnishæfni atvinnulífsins til lengdar. Ég minni á þjóðhagsáætlun sem ég lagði fram fyrir nokkrum vikum, þskj. 2, þar sem fjallað er um sýn okkar um umbætur í atvinnulífinu til meðallangs tíma sem eiga að hvata hagvöxt og verða styrkari stoð fyrir fjölbreytt atvinnulíf, hátækniatvinnulíf, það atvinnulíf sem getur skapað verðmætari störf. Við þurfum að horfa á það vegna þess að við byggjum á of einhæfum stoðum um hagvöxt okkar nú.

Að síðustu varðandi skattstefnuna og skattkerfisbreytingarnar. Ég er ekki sammála því að þrepaskattur sé af hinu illa í þessu samhengi. Eins og hér hefur komið fram hefur hann tekjujafnandi áhrif og skilar árangri þar. Og ég vek athygli á því að sú aðferðafræði að hækka persónuafsláttinn hefur verið gagnrýnd, m.a. af þeim æðstu prestum hreintrúarsafnaðar vinstri manna sem er að finna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem gerði úttekt á íslenska skattkerfinu og gagnrýndu sérstaklega kerfi hás persónuafsláttar og flatskatta. Þeir töldu eðlilegra að fara hina leiðina, hina norrænu leið, (Forseti hringir.) með annars konar breytingum á skattkerfinu, að persónuafslátturinn væri lægri og að hér væri fjölþrepaskattkerfi. Ég held að það skipti máli (Forseti hringir.) að horfa á það með opnum huga en mér þykir það tímanna tákn að þetta eina atriði sé það sem ég virkilega hnýt um í þessu plaggi.