140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara hv. þingmanni þá fagna ég því að framsóknarmenn ætla líka að koma með tillögur um framsókn í atvinnumálum. Það er mjög gott og mikilvægt.

Varðandi framkvæmd efnahagsstefnunnar vil ég benda á að það sem hefur hamlað okkur mest eru ytri aðstæður. Margar af tillögunum sem felast í tillögum framsóknarmanna á ákveðnum sviðum takmarkast auðvitað eðli málsins samkvæmt af svigrúminu í ríkisfjármálum, kafla IV. Ef það væri ekki sagt í tillögum framsóknarmanna í kafla IV að það ætti að stefna að jöfnuði í ríkisfjármálum væri verið að efna til umtalsverðra útgjalda. Við erum auðvitað bundin af nákvæmlega sama aðhaldi í ríkisfjármálum og hv. þingmenn Framsóknarflokksins gera sér grein fyrir að þeir mundu vera bundnir af ef þeir væru við stjórnvölinn og það setur okkur mörk. Það setur t.d. eins og ég nefndi áðan ríkissjóði takmörk fyrir því hvað hægt er að ráðast í af flýtiframkvæmdum. Við venjulegar aðstæður hefðum við t.d. farið í það strax í hruninu ef við hefðum haft til þess skuldsetningargetu að fara í miklar opinberar framkvæmdir. Það hefði verið augljóst. Það var mjög sárt og sárara en tárum taki að skera niður framkvæmdir til vegamála á árinu 2009 til að ná utan um ríkisútgjöldin en því miður var það óhjákvæmilegt. Það er auðvitað þessi ytri rammi sem hefur takmarkað möguleika okkar að langmestu leyti. Um leið og við höfum svigrúm til, eins og í fjárlögum næsta árs, gerum við ráð fyrir að lækka t.d. launaskattana, um leið og við sjáum svigrúm (Forseti hringir.) verða lækkaðir þeir skattar sem voru settir á vegna þess að neyð krafðist þess.