140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[16:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni aftur fyrir hans góðu ræðu og þetta góða mál og málefnalegar athugasemdir hans.

Fyrst varðandi gjaldmiðilinn þá er auðvitað eðlismunur á því ef við stæðum frammi fyrir því, hafandi tekið einhliða upp gjaldmiðil, að þurfa að kaupa þann gjaldmiðil dýrum dómum til að geta staðið undir útflæðishættu allra innstæðna úr íslensku bankakerfi sem núna standa í einhverjum 1.700 milljörðum, því að ég hef enga trú á að það sé til nógu mikið af vitlausu fólki á Íslandi til að vilja eiga innstæður sínar í íslenskum Kanadadollurum. Ég held að þeir mundu örugglega vilja eiga þær í alvöru Kanadadollurum. Það er auðvitað alvarlegur vandi sem við stæðum frammi fyrir sem við mundum ekki standa frammi fyrir með sama hætti ef við værum aðilar að evrunni. Þá væri íslenska krónan lögeyrir þangað til evran yrði lögeyrir og við þyrftum ekki að skuldsetja okkur fyrir því. Útflæðisþrýstingur væri vandamál út af fyrir sig, það er eitt, það er auðvitað alltaf vandamál, en til viðbótar því þyrfti ríkið að skuldsetja sig til að kaupa fólk út. Það er t.d. staða sem við sjáum ekki fram á að við gerum í dag með núverandi gjaldmiðil, hvað þá að við gerðum það með samhliða upptöku annars einhliða.

Varðandi 20% niðurfellingarhugmyndirnar og hvort þær hafi verið skynsamlegar á einhverjum tíma þá felst auðvitað í mati hv. þingmanns sami vandinn við endurmat á þeirri ákvörðun og við stóðum alltaf frammi fyrir þá, sem er líka sá að ef í hana yrði ráðist er hún heldur ekki algild, hvað þá ef nýtt verðbólgugos hefði komið og fólk hefði aftur lent í sömu stöðu. Ég vil bara segja að ég fagna því að sjá hér í tillögu Framsóknarflokksins að menn eru búnir að taka út af borðinu hugmyndina um að 20% niðurfelling komi til greina og kostnaður af henni verði borinn af almenningi í landinu. Það er bara afskrifað. (Gripið fram í.) Jú, jú, þarna er sagt alveg skýrt að það sé hægt að nýta svigrúm sem sé í fjármálastofnunum eftir því sem við verði komið til almennra aðgerða, (Forseti hringir.) en menn ætli ekki, ég les það þannig af því að hér er lögð áhersla á jafnvægi (Forseti hringir.) í ríkisútgjöldum, að láta ríkissjóð borga fyrir þetta. (Gripið fram í.)