140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það er einmitt mjög mikilvægt að umræða um efnahagsmál og stefnu í þeim fari fram milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu.

Ég tel hins vegar ástæðu til að ítreka það sem ég nefndi áðan, eftir fyrri athugasemdir hv. þingmanns, að tillögurnar fela ekki í sér heilt yfir aukin útgjöld heldur fyrst og fremst sparnað og sérstaklega auknar tekjur. Þetta er algjört lykilatriði í tillögunum.

Varðandi skattstefnuna eru til að mynda færð rök fyrir því að einfaldara skattkerfi, og í sumum tilvikum jafnvel lægri skattar, og stöðugleiki í skattamálum skapi meiri tekjur, ekki minni tekjur. Því er þetta ekki spurning um að finna einhverjar tekjuleiðir á móti heldur er þvert á móti verið að auka tekjurnar. Það er ekki að ástæðulausu sem þessu er haldið fram. Eins og nefndi áðan hefur reynslan sýnt, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim, að einfaldara skattkerfi og í sumum tilvikum lækkun skatta við vissar aðstæður eins og þær sem ríkja hér skilar ekki minni tekjum til ríkisins heldur meiri tekjum. Ég nefndi áðan dæmi um Kanada. Svo höfum við auðvitað mjög nærtækt dæmi sem er Ísland akkúrat núna þar sem við höfum séð leið ríkisstjórnarinnar, leið skattahækkana og flækjuleiðina, sem hefur ekki skilað auknum tekjum og í mörgum tilvikum dregið úr tekjum ríkisins. Ég nefni sem dæmi auknar álögur á eldsneyti. Þar af leiðandi er þetta ekki spurning um að finna nýjar tekjuleiðir til að standa straum af auknum útgjöldum, (Forseti hringir.) heldur spurning um að auka tekjur og við höfum dæmi sem sýna fram á það.