140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara yfir einstakar tillögur, það gerði hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ágætlega þegar hann mælti fyrir þessari tillögu. Ég ætla þó að ítreka ákveðna hluti.

Þessari tillögu fylgir önnur tillaga sem er búið að leggja fram og verður mælt fyrir væntanlega í næstu viku, um sókn í atvinnumálum. Markmið okkar þingmanna Framsóknarflokksins hefur verið að leggja fram metnaðarfullar tillögur til lausnar á þeim efnahagsvanda sem þjóðin glímir við og það höfum við gert allt frá árinu 2009. Þær tillögur eru margar hverjar fullgildar enn þá. Að sumum þeirra er nú loksins byrjað að vinna eftir allan þennan tíma en aðrar hafa ekki enn hlotið hljómgrunn.

Ég ætla að fara aðeins yfir ummæli um þessar tillögur. Ég þakka fyrir það almennt jákvæða viðhorf sem hefur komið fram hjá þingmönnum sem hafa talað, þar á meðal hæstv. efnahagsráðherra. Þegar menn setjast niður og skoða málin ofan í kjölinn sjá auðvitað flestir að það eru kannski ekki mjög flóknir hlutir sem þarf til að koma málum áfram og snúa dæminu við. Þess vegna er ekkert ólíklegt að stutt sé á milli manna þegar farið er að skoða hlutina.

Auðvitað er sú þingsályktunartillaga sem hér er lögð fram kerfisbreyting fyrst og fremst. Það er verið að boða ákveðnar breytingar í þeim liðum sem taldir eru upp og hluti af þeim er vitanlega að breyta skattkerfinu og horfa á rekstur ríkissjóðs með öðrum augum en hefur verið gert. Ef einhverjir hafa sagt að í þessari tillögu sé ekki um tekjuaukandi tillögur að ræða geta kerfisbreytingarnar einfaldlega falið í sér tekjuauka. Hins vegar vil ég ítreka að við höfum lagt fram og munum mæla fyrir sérstökum tillögum til þess að auka hér hagvöxt og fjölga störfum.

Það er örlítill misskilningur í gangi varðandi þessar tillögur. Í fyrsta lagi vil ég nefna endurskipulagningu skulda. Auðvitað var það alltaf hugmyndin hjá okkur sem höfum talað fyrir þessu máli að fjármálafyrirtækin mundu bera þann kostnað. Það er að sjálfsögðu markmiðið sem var farið af stað með. Nú hafa einstaka fjármálastofnanir líkt og Landsbankinn kynnt ákveðnar aðgerðir, endurgreiðslu á hluta af vöxtum og þess háttar, en ríkissjóður hins vegar, Íbúðalánasjóður, hefur ekki enn kynnt slíkar aðgerðir og er þar vitanlega ekki sjóðnum að kenna heldur kannski þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að vilja ekki fara þær leiðir að semja við lífeyrissjóði er fjármagna lán Íbúðalánasjóðs.

Ég vil taka fram að í 3. lið fyrstu tillögu um endurskipulagningu skulda kemur fram að svigrúm fjármálastofnana verði nýtt. Síðan kemur líka fram að það verði mögulega gert með öðrum almennum aðgerðum. Í því sambandi er nauðsynlegt að nefna að það kemur líka fram að stefnt skuli að því að reka ríkissjóð hallalausan nema í sérstökum undantekningartilfellum.

Virðulegi forseti. Nú hefur ríkisstjórnin eins og allir vita brugðist í því að nýta það svigrúm sem var við endurreisn og einkavæðingu nýju bankanna til þess að lækka lán heimila og fyrirtækja. Því kann að vera, ef niðurstaðan verður sú að fara þá leið, að ríkissjóður þurfi að leggja eitthvað af mörkum þó að það hafi í sjálfu sér ekki verið markmiðið og margsýnt fram á að þess væri ekki þörf.

Varðandi það sem kom fram hér hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram um skammtímalækkun krónunnar þarf að klára það sem þar stendur til að fá rétta mynd af þessari tillögu. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Komið verði í veg fyrir að skammtímalækkun krónunnar í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta leiði til sjálfvirkrar hækkunar verðtryggðra lána í landinu.“

Þessi liður gengur semsé út á það að við afnám gjaldeyrishafta verði komið í veg fyrir að lán heimila stökkbreytist á ný frá því sem verið hefur í dag. Þar höfum við bent á að það kunni að vera leið að festa vísitöluna í ákveðinni prósentu.

Síðan vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi míns máls varðandi skatta og skattstefnu og skattkerfisbreytingar að vitanlega er verið að leggja til stefnubreytingu. Að okkar mati er flytjum þessa tillögu mun slík stefnubreyting leiða til aukinna tekna frekar en kostnaðar.

Varðandi þær umræður sem hafa verið um gjaldmiðilinn þá þurfa evruríki í vanda að sjálfsögðu að kaupa evrur til að eiga fyrir reikningum sínum eða taka þær að láni. Formaður Framsóknarflokksins hefur bent á þá stöðu sem þessi ríki eru í. Ekki má gleyma því að ríki sem tekur upp nýjan gjaldmiðil í samstarfi eða samráði við annað ríki, hvort sem það er Kanadadollari eða eitthvað annað, af því að sá gjaldmiðill var nefndur hér, kann að leita samninga við viðkomandi ríki eða seðlabanka þess ríkis um ákveðið gengi á þeim gjaldmiðli sem skipt er út og þeim sem tekinn er upp í staðinn. Þetta þarf allt að skoða. Það er mjög mikilvægt að þeir sem eru uppteknir af því að evra sé ein allsherjarlausn fyrir Ísland losi sig aðeins undan þeirri hugsun til að koma með okkur hinum í að skoða hvort aðrir möguleikar, aðrar leiðir, aðrir gjaldmiðlar séu fýsilegri á allan hátt fyrir Íslendinga.

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur verið sagt um að þessar tillögur fái efnislega og góða yfirferð í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég reikna með að þessu verði vísað þangað og vona ég sannarlega að svo verði. Ég ítreka að þetta er hluti af heildarmynd sem við leggjum nú fram líkt og við höfum gert undanfarin þing.