140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ánægður að heyra hv. þingmann árétta það sem ég benti á áðan, það er ekki síður fólgin í því hætta og raunar miklu frekar hætta við þær aðstæður sem við erum í núna að hækka skatta en lækka þá. Þar er ég að tala um tekjur ríkisins. Áhættan hvað varðar tekjur ríkisins er meiri af því að hækka skattana eins og við höfum þegar séð en því að einfalda skattkerfið og lækka skatta við þær aðstæður sem við erum í núna.

Hv. þingmaður talaði töluvert um fjárfestingu og það mikla áhyggjuefni hversu lítil hún hefur verið á Íslandi undanfarin tvö, þrjú ár. Hv. þingmaður nefndi töluna 13%, ég er ekki frá því að nýjustu tölur gefi til kynna að hlutfallið sé komið niður í um það bil 10%. Þetta er mikið áhyggjuefni og gefur vísbendingu um hvers er að vænta hvað varðar möguleika ríkisins á að afla tekna og möguleika atvinnulífs og heimila á að vinna sig út úr vanda.

Nú hefur umræðan um þessar tillögur verið svo jákvæð að maður veigrar sér við að nefna það sem flokka mætti sem neikvæðni. Það verður ekki hjá því komist að velta því fyrir sér hvernig standi á því að þegar meira að segja hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma hér upp og lýsa sig að langmestu leyti sammála þessum tillögum hafi þeir þá ekki á undanförnum tveimur, þremur árum framkvæmt í samræmi við þessar tillögur. Ef menn eru sammála um leiðirnar í grófum dráttum, af hverju hefur þá ekki verið framkvæmt? Getur verið að það skýrist að einhverju leyti af því að hluti ríkisstjórnarinnar, ekki endilega þeir hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem töluðu hér áðan en hugsanlega einhver hluti þess flokks, líti svo á að það sé bara allt í lagi að hlutirnir fari ekki af stað hér á meðan (Forseti hringir.) ekki er búið að taka afstöðu til umsóknar um aðild að Evrópusambandinu?