140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[17:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um skattana. Vandinn er sá að útgjöld ríkissjóðs þöndust út á síðasta áratug og hraðar en góðu hófi gegndi. Það voru mistök og við sjálfstæðismenn höfum margoft gengist við þeim mistökum úr þessum ræðustól. Þess vegna er það mjög erfitt verkefni að snúa niður útgjöldin en það er augljóst að það er hægt að gera það. Ég vitna meðal annars til orða hæstv. velferðarráðherra sem benti á að menn gætu horft til ákveðinna ára og miðað ríkisútgjöldin við það árabil, t.d. árið 2004–2005, og reynt að skaða sig til baka. Með öðrum orðum höfum við ekki efni á þeim ríkisútgjöldum sem við stöndum fyrir. Þannig er það.

Hvað varðar fjárfestingarnar er alveg nauðsynlegt að menn hafi það í huga, gleymi því ekki, að til þess að það verði hagvöxtur, til þess að til verði störf sem síðan leiði til verðmætasköpunar og hagvaxtar, þarf fjárfestingu. Ef fjárfestingin er lág er það ávísun á færri störf. Hagvöxturinn verður vegna fjárfestinga og vegna þess að við náum fram framleiðniaukningu, þ.e. við náum með tækniframförum að gera meira úr þeim tækifærum sem við höfum í höndunum. Þetta er því mikið áhyggjuefni.

Hvað varðar það að ríkisstjórnin hefur rekið stefnu sína eins og raun ber vitni eru sennilega aðrir betur til þess fallnir að svara hreint út sagt og væri áhugavert að fá til dæmis hv. þingmann úr liði Vinstri grænna til að útskýra fyrir þjóðinni og okkur þingmönnum hvernig í ósköpunum stendur á því að ekki hefur verið tekið fastar á (Forseti hringir.) og tækifærin nýtt betur. Má ég til dæmis benda á það vandamál sem er uppi vegna óvissunnar í sjávarútvegi? (Forseti hringir.) Hvers vegna í ósköpunum þurfum við að standa í þessu eftir að búið var að ná góðri sátt í þeim málaflokki? (Forseti hringir.) Þá var hún rofin og allt fer í háaloft.