140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

jafnréttismál.

[15:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Nú er um hálft ár síðan álit og úrskurður kærunefndar jafnréttismála í málefnum varðandi ráðningu Önnu Kristínar Ólafsdóttur lá fyrir þar sem sagt var alveg skýrt að forsætisráðherra hefði gerst brotlegur við jafnréttismálin.

Ég vil draga fram að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið mjög drjúgur og ötull talsmaður jafnréttismála í þau ár sem hún hefur setið á Alþingi. Því skal haldið til haga og ég geri það hér með. Þess vegna er sárt þegar kona er í fyrsta sinn í stóli forsætisráðherra að upplifa að jafnréttislög séu brotin, ekki síst eftir þá breytingu sem Alþingi gerði að frumkvæði hennar og ýmissa þingmanna að gera álit og úrskurð kærunefndar jafnréttismála bindandi.

Þess vegna spyr ég um stöðuna í þessu máli. Mér finnst skipta máli hvaða merki, orð og athafnir koma fram af hálfu forsætisráðherra í þessu máli. Hvað líður þessu máli, hvar stendur það, er búið að ná sáttum við Önnu Kristínu Ólafsdóttur? Aðrir ráðherrar sem hafa því miður gerst brotlegir gagnvart jafnréttismálum völdu á sínum tíma að semja í stað þess að fara í mál. Hver er staðan í málinu? Er búið að ná sáttum við þann sem var brotið á eða stöndum við frammi fyrir málaferlum sem tengjast þá broti forsætisráðherra á jafnréttislögum?