140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

fæðuöryggismál.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er vitaskuld mikilvægt mál sem hv. þingmaður tekur upp, fæðuöryggismálin. Vissulega var það tekið inn í 20/20-sóknaráætlun okkar sem unnið er eftir og það markmið sett sem hv. þingmaður fór yfir um innlend matvæli að því er varðar aukninguna á því tímabili sem þessi sóknaráætlun er í gildi.

Þegar við skoðum fæðuöryggismál og innlenda matvælaframleiðslu er mjög mikilvægt að við horfum alltaf til þessara mála út frá sjónarmiðum neytenda og bænda. Hagsmunir þessara aðila fara saman. Stundum hefur framkvæmdin að því er varðar innlenda matvælaframleiðslu, af því að við viljum gjarnan líka flytja út matvæli okkar, ekki verið til hagsbóta fyrir neytandann, t.d. að því er varðar ofurtollana á kjötinu sem við höfum margoft farið í gegnum á þinginu, bæði á síðasta septemberþingi og áður. Þetta er mjög mikilvægt mál sem hv. þingmaður nefndi. Ég man ekki nákvæmlega hvernig þessi áætlun er varðandi sérstaklega innlendu matvælaframleiðsluna og aukninguna á henni í 20/20 en þar er sett fram áætlun eins og um ýmislegt annað í þeirri sóknaráætlun. Vissulega eru fæðuöryggismálin og innlend matvælaframleiðsla mjög mikilvæg, en við verðum líka að horfa á þetta út frá því sjónarmiði að þegar við horfum á íslenska matvælaframleiðslu á hún að vera til hagsbóta bæði fyrir bændur og neytendur. Eins og hún er framkvæmd í dag virðist nokkuð skorta upp á það að hún sé til hagsbóta fyrir innlenda neytendur.