140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

fæðuöryggismál.

[15:14]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en lýsi mig algjörlega ósammála henni um að sú stefna sem rekin er í dag sé ekki til hagsbóta fyrir íslenska neytendur. Við höfum sýnt fram á það að á undanförnum árum, frá því fyrir hrun 2007, hafa innlend matvæli á Íslandi hækkað mun minna en önnur matvæli og hækkað minna en vísitalan í heild. Þetta er einfaldlega rangt hjá ráðherranum.

Mig langar til að segja hér við hæstv. ráðherra að nú síðar í vikunni mun varaformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, vonandi mæla fyrir þingsályktunartillögu um sókn í atvinnumálum og þar er að finna ágætan kafla um landbúnað sem ég held að væri gott fyrir ríkisstjórnina að kynna sér. Þetta er allt undir því plani B sem Framsóknarflokkurinn kynnti í dag og væri áhugavert fyrir ríkisstjórn Íslands að hafa það í huga þegar hún vinnur að þessum málum.