140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

fæðuöryggismál.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þótt við séum sammála um fæðuöryggi og að við þurfum að hafa eðlilegan hlut innlendra matvæla í framleiðslu okkar erum við algerlega ósammála um framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. Hún er ekki til hagsbóta fyrir neytendur að öllu leyti. Við vitum að tollarnir (Gripið fram í.) sem hafa verið settir á koma í veg fyrir eðlilegan innflutning (Gripið fram í.) sem við þurfum að hafa hér til að standast samkeppni. Við erum alltaf nógu góð í að flytja út lambakjöt okkar og aðrar afurðir en síðan setjum við á slíka ofurtolla að það er næstum útilokað að neytendur geti notið þeirra hagsmuna sem þeir eiga að geta haft af því að innflutningur sé hér eðlilegur eins og annars staðar. (Gripið fram í: Jú, jú.) (Forseti hringir.) Svo er ég alveg örugg á því að matvælaverð mundi lækka enn meira ef við bærum gæfu til þess sem fyrst (Gripið fram í.) að gerast aðilar að ESB.