140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

auglýsingu Háskóla Íslands um stöðu prófessors.

[15:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra og því að hæstv. ráðherra muni beita sér í þessu máli. Það er ljóst mál hvað hér hefur gerst, einfaldlega það að Háskóli Íslands hefur farið af stað með þessa auglýsingu í blóra við vilja Alþingis og í blóra við yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra. Þetta tel ég grafalvarlegt mál.

Auðvitað er Háskóli Íslands sjálfstæð stofnun og vitaskuld er það þannig almennt talað að við mundum ekki hafa afskipti af máli eins og þessu nema vegna þess hvernig til þess var stofnað. Það var stofnað til þessa máls eins og við öll munum á sérstökum hátíðarfundi þar sem við samþykktum þessa þingsályktun með öllum greiddum atkvæðum eftir því sem ég best man. Síðan var málið frekar útskýrt í greinargerð, eins og ég gerði frekar grein fyrir, og síðan áréttað af hálfu hæstv. forsætisráðherra á hátíðarfundinum á Hrafnseyri þar sem við sem þar vorum viðstödd fögnuðum öll yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra.

Hér fór ekkert á milli mála. Háskóli Íslands er bundinn af þessari samþykkt. Ástæðan fyrir því að verið er að auglýsa þetta prófessorsembætti er að Alþingi ákvað að það yrði gert og með þeim hætti sem ég hef þegar gert grein fyrir og hæstv. forsætisráðherra hefur nú staðfest að er rétt lýsing á öllu því sem þarna gerðist. Við öll sem vorum viðstödd (Forseti hringir.) þegar þessi ákvörðun var tekin þekkjum það mál.

Að öðru leyti fagna ég yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra og tel að Háskóli Íslands eigi að draga til baka auglýsinguna og auglýsa með þeim hætti sem Alþingi hafði gert ráð fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)