140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

áhersla ríkisstjórnarinnar á jafnréttismál.

[15:21]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að finna sérstakan kafla um mannréttindi og lýðræði. Þar kemur meðal annars fram að leggja eigi aukna áherslu á kvenfrelsi, að málaflokkur jafnréttismála fái aukið vægi innan stjórnkerfisins, Jafnréttisstofa efld og sjálfstæði hennar, jafnréttismál flytjist til forsætisráðuneytisins, áhrif kvenna í endurreisninni verði tryggð, hlutfall kynja jafnað á öllum sviðum o.s.frv. og að þetta verði haft að leiðarljósi við atvinnusköpun. Enn fremur ætlar ríkisstjórnin að grípa til aðgerða til að útrýma kynbundnum launamun í samvinnu við hagsmunasamtök og grípa til aðgerða til að útrýma kynbundnu ofbeldi.

Þegar ég fór að fletta skrá ríkisstjórnarinnar um þingmál varð mér starsýnt á að það var nánast ekkert mál þar sem kemur inn á samstarfsyfirlýsinguna. Frá forsætisráðuneytinu kemur frumvarp til upplýsingalaga, breyting á stjórnsýslulögum, fækkun úrskurðarnefnda, skýrslur um framkvæmdir þingsályktana, skýrsla um áhrif laga um opinberar eftirlitsreglur o.fl., skýrsla um ráðstöfun lands og landsréttinda og skýrsla um siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni. Hér er ekkert um aukið kvenfrelsi og ekkert um kynbundinn launamun. Það er aðeins eitt frumvarp sem hefur snertiflöt við það og það er frumvarp hæstv. innanríkisráðherra um kynferðislega misbeitingu og ofbeldi gegn börnum.

Ég spyr að þessu gefna tilefni hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ráðherra jafnréttismála: Hvers vegna er þetta svo? Hvar er áherslan á kvenfrelsið í málaskrá ríkisstjórnarinnar? Hvað er í bígerð til að efna fyrirheitin, loforðin sem svo stór hópur kvenna meðal kjósenda ríkisstjórnarflokkanna batt svo miklar vonir við vorið 2009?