140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

áhersla ríkisstjórnarinnar á jafnréttismál.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn ákvað að auka vægi jafnréttismála og mannréttindamála með því að skipa sérstaka ráðherranefnd um jafnréttismál og mannréttindamál sem er í forsætisráðuneytinu og hittist reglulega til að fara yfir stöðu mála. Skýringin á því að ekki er að finna nein mál í þessari málaskrá sem hv. þingmaður nefndi er að ef mál eru flutt sem snerta jafnréttismál heyra þau að öllu jöfnu undir velferðarráðherra. Hann flytur til að mynda tillögur um jafnréttismál og framkvæmdaáætlanir í launamálum sem við fórum fyrir nokkrum dögum yfir á ráðherranefndarfundi um launamálin vegna þess að við höfum áhyggjur af stöðunni. Nýlegar skoðanakannanir hafa sýnt að hjá opinberum aðilum sé afturhvarf í þessum málum og það er nokkuð sem við viljum ekki búa við. Við fórum vel yfir það, fjórir ráðherrar sem erum í þessum ráðherrahóp, með embættismönnum okkar hvernig hægt væri að bregðast við. Nú er verið að vinna ákveðna aðgerðaáætlun sem þessi fjögur ráðuneyti koma að ásamt Jafnréttisstofu um hvernig hægt er að taka á þessum launamun og hún verður væntanlega tilbúin um næstu áramót.

Síðan hefur auðvitað ýmislegt breyst í þessum málum. Ég held að ég fari rétt með að við séum búin að ná þeim markmiðum að að lágmarki 40% af hvoru kyni sitji í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum hins opinbera. Það hefur verið sett löggjöf um að auka hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða ef ég man rétt. Mig minnir að hún eigi fljótlega að taka gildi. Við höfum sett lög kennd við austurrísku leiðina að því er varðar heimilisofbeldi o.s.frv. þannig að þessi ríkisstjórn hefur virkilega (Forseti hringir.) tekið á málum sem hafa setið eftir árum saman í þinginu. Það er ekki hægt að segja að hún hafi setið aðgerðalaus þegar kemur að mannréttindamálum og kvenfrelsismálum.