140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa við Reykjavíkurhöfn.

47. mál
[15:35]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vík fyrst að fyrsta lið fyrirspurnarinnar þar sem spurt er hvaða breytingar séu fyrirhugaðar á stjórnskipan og rekstrarformi tónlistar- og ráðstefnuhússins.

Fyrir hrun hafði verið gert ráð fyrir að eignarhald og rekstur Hörpu yrði í höndum einkaaðila, Portusar sem er móðurfélag Agos og Totusar sem skipta með sér eignarhaldi á rekstri Hörpu. Ríki og borg stofnuðu sameiginlega félag, Austurhöfn, sem gegndi hlutverki kaupanda samkvæmt samkomulagi sem aðilar gerðu með sér 9. mars 2006. Þegar kom að yfirtöku ríkis og borgar á verkefninu var ákveðið að hrófla ekki við því skipulagi sem búið var að koma upp, enda um að ræða flókið samspil samninga og skuldbindinga við verktaka af ýmsu tagi. Eftir á að hyggja hefur þessi ákvörðun reynst heilladrjúg. Hins vegar hefur verið áhugi á að einfalda þetta fyrirkomulag að gefnu tilefni, eins og kemur reyndar fram í fyrirspurninni, eftir að byggingu hússins lyki. Nú hafa orðið þessi þáttaskil í verkefninu að húsið hefur hafið starfsemi og verið er að ljúka við síðustu verkþætti byggingarinnar. Þá er unnið að endurfjármögnun þeirra skuldbindinga sem ráðist var í við yfirtökuna.

Að undanförnu hafa ríki og borg unnið að eigandastefnu fyrir Hörpu og nú er verið að leggja lokahönd á drög sem lögð verða fljótlega fram til kynningar, vonandi á allra næstu vikum, en þar verða birt meginmarkmið ríkis og borgar með rekstri hússins og þau gildi sem því er ætlað að starfa eftir.

Um rekstrarformið er það að segja að gert er ráð fyrir að skilið verði betur á milli þeirra verkefna sem lúta að frekari framkvæmdum á svæðinu annars vegar, svo sem á byggingarreit fyrir hótel sem nú er í söluferli, og reksturs Hörpu hins vegar. Þeir reitir sem eru óbyggðir eru í eigu Sítusar, sem er systurfélag Portusar, en Portus og félög sem heyra undir það verða þá sameinuð undir eitt félag sem sjái um eignarhald og rekstur Hörpu.

Áfram er gert ráð fyrir að Harpa verði hlutafélag en í sameiginlegri eigu ríkis og borgar. Þá er verið að leggja lokahönd á fyrirkomulag eftirlits og umsýslu vegna núgildandi þjónustusamnings um starfsemi Hörpu á milli Austurhafnar og Portusar.

Ég vona að þetta svar komi til móts við fyrstu spurningu fyrirspyrjanda.

Varðandi heildarkostnað við byggingu hússins voru þær forsendur sem menn gáfu sér við yfirtöku verkefnisins að ekki þyrftu að koma til önnur framlög frá ríki og borg en gert var ráð fyrir í samningi Austurhafnar og Portusar frá 9. mars 2006. Að þessu hefur verið stefnt síðan. Á núverandi verðlagi nema þessi framlög 960 millj. kr. á ári og eru til 35 ára. Framlögin fylgja vísitölu neysluverðs. Hlutur ríkisins er þar 54%, en borgarinnar 46%.

Í þeirri útkomuspá sem nú er miðað við er gert ráð fyrir að kostnaðurinn nemi um 17,7 milljörðum kr. frá því að ríki og borg yfirtóku verkefnið. Breytingar frá upphaflegri spá við yfirtöku verkefnisins má fyrst og fremst skýra með verðlagsþróun og breytingum á gengi krónunnar. Við þetta má bæta, eins og komið hefur fram opinberlega, að um 10 milljörðum hafði verið varið til byggingarinnar fyrir hrun, auk þess höfðu verið keyptir byggingarreitir aðrir en reitur Hörpu og lagt í töluverðan kostnað vegna þeirra.

Allar kröfur Landsbankans á Portus og dótturfélag voru keyptar. Kaupverðið var tekið að láni með veði í byggingarreit á lóðinni öðrum en reit Hörpu. Ætlunin er að endurselja þá reiti fyrir þessum kostnaði og þessi hótellóð er nú í söluferli. Af þessu má vera ljóst að fjármögnun Hörpu og rekstur íþyngist ekki af þessum sökum.

Loks spyr fyrirspyrjandi hversu mikið fé hafi verið afskrifað við yfirtöku verkefnisins eftir hrun og á hvern sá kostnaður falli. Eins og kom fram í svari mínu námu skuldbindingar Portusar við gamla Landsbankann um 10 milljörðum við yfirtöku verkefnisins, auk þess sem félögin sem stóðu að verkefninu höfðu lagt því til eigið fé. Þessar kröfur voru keyptar fyrir 1,6 milljarða kr. og kaupverðið var tekið að láni með veði í byggingarreitnum sem ég nefndi áðan.

Þrír aðrir byggingarreitir voru einnig keyptir og andvirðið tekið að láni með veði í þeim reitum. Þeir eru í eigu systurfélags Portusar og útkoma úr endursölu þeirra á ekki að trufla rekstur Hörpu. Þó að við höfum ekki upplýsingar um það hvernig mismunurinn á verðmæti krafnanna hafi verið færður til bókar hjá viðkomandi félögum má leiða líkur að því að þær hafi verið eða verði afskrifaðar að hluta eða öllu leyti.